Mývatn að hruni komið

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Ómar

„Í lífríki vatnsins er nánast algert hrun. Bleikjustofninn er hruninn, hornsílastofninn er hruninn, kúluskíturinn er horfinn af botni vatnsins og vöxtur blágerla verður æ meira áberandi í vatninu á hverju ári svo það verður ekki tært yfir sumartímann“.

Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, í sérstakri umræðu um stöðu Mývatns og frárennslismála þar. Benti þingmaðurinn á að lengi hafi menn vitað um náttúrulegar sveiflur í lífríki Mývatns, en það sem nú er að gerast er hins vegar nýtt af nálinni.

„Svona hrun, samfellt og langvarandi, hafa menn ekki séð áður. Óháð því hversu stór þáttur umsvif mannsins á vatnsbökkunum, bæði búsetunnar og ferðaþjónustunnar sem vex hratt ár frá ári, eru í stöðunni á Mývatni verður að koma frárennslismálum þar í ásættanlegt horf. Annað er ekki boðlegt í návígi við þessa miklu náttúruperlu. Og það er þáttur mannsins sem við getum haft bein áhrif á.“

Munu ekki veita fleiri framkvæmdaleyfi

Því næst spurði Steingrímur J. umhverfis- og auðlindaráðherra að því hvort hann væri sammála því að ríkið hafi skyldum að gegna þegar kemur að náttúru og lífríki Mývatns og Laxár.

„Hyggst ríkið koma að lausn frárennslismála í Skútustaðahreppi með beinum fjárframlögum? Ef svo er, hvenær og í hve ríkum mæli?“

Þá sagðist Steingrímur J. vita til þess að sveitarstjórn Skútustaðahrepps væri mjög metnaðarfull í umhverfismálum og vill sjá farsæla úrlausn þessara mála. „Ég hef ástæðu til að ætla að sveitarstjórn Skútustaðahrepps muni ekki veita framkvæmdaleyfi fyrir frekari uppbyggingu á vatnsbakkanum, nema tryggt sé að frárennslismál verði í lagi,“ sagði hann.

Að mati Steingríms J. ætti tafarlaust að heita Skútustaðahreppi 150 til 170 milljón króna framlagi í fyrsta áfanga frárennslismála og 10 til 20 milljónir króna í að efla rannsóknir og úrvinnslu gagna. „Það er þetta sem þetta snýst um - verum ekkert að gera málin flókin.“

Eigum að fara í aðgerðir strax

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, sagði í andsvari sínu Mývatn vera eina af helstu náttúruperlum landsins.

„Varðandi fyrstu spurninguna - hvort ráðherra sé sammála og því að ríkið hafi skyldur, er raunverulega hægt að svara með einu orði: sannarlega,“ sagði Sigrún.

„Það er ekki hægt að segja annað en að málefni Mývatns hafi stöðugt verið í meðhöndlun hjá okkur í ráðuneytinu. Og í kjölfar ástandsins síðastliðið sumar lét ég gera sérstaka úttekt á innstreymi næringarefna í Mývatn og hvaðan þau kæmu. Tilgangurinn var fyrst og fremst að skilja ástandið betur og orsakir þess,“ sagði Sigrún.

Áðurnefnd úttekt birtist fyrr á þessu ári. „Ég túlka þessar niðurstöður þannig að við eigum að fara í aðgerðir til að draga úr álagi strax, þó það sé ekki víst að þær muni einar og sér ná að snúa ástandinu við á stuttum tíma.“

Þá sagðist Sigrún reiðubúin til að leggja fram tillögur á Alþingi um fjárframlög til sveitarfélagsins svo hægt verði að bæta þar frárennslismál. „Umhverfisráðherra er mjög tilbúin að koma með slíkar tillögur.“

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is