Bannað að nálgast dætur sínar

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Kristinn

Hæstiréttur hefur dæmt karlmann til að sæta nálgunarbanni í hálft ár, en mannninum er bannað að koma á eða í námunda við heimili tveggja dætra sinna á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus. Jafnframt er lagt bann við því að maðurinn veiti þeim eftirför, nálgist þær á almannafæri eða setji sig í samband við þær með öðrum hætti.

Dómur Hæstaréttar lá fyrir í gær, en þar er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur frá 9. maí staðfestur. 

Maðurinn hefur þrívegis áður verið gert að sæta nálgunarbanni. Fram kemur í dómi Hæstaréttar að með framgöngu sinni hafi hann einkum raskað friði barnungrar dóttur sinnar.

„Að virtri forsögu málsins eru engin efni til að binda nálgunarbannið við það barn þótt athafnir hans hafi síður bitnað á yngra barninu. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur,“ segir Hæstiréttur.

Hegðun mannsins veldur dóttur hans miklum vanlíðan

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir, að maðurinn hafi nálgunarbanni gagnvart barnsmóður sinni og dætrum þeirra í 6 mánuði frá 19. júlí 2013.

Þann 27. október 2014 var honum aftur verið gert að sæta nálgunarbanni, en þá hafði lögregla upplýsingar um það að kærði hefði valdið barnsmóður sinni og dætrum þeirra miklu ónæði. Konan fer með forsjá dætra þeirra og hafði á þeim tíma ekki náðst samkomulag um umgengni hans við börnin hjá sýslumanni.

Samkvæmt upplýsingum lögreglu hafði maðurinn þá setið í kringum heimili þeirra og valdið miklu ónæði í skóla og frístundarheimili annarrar stúlkunnar þar sem hann hafi sótt mjög stíft að hitta hana fyrir. Skólayfirvöld og barnavernd hafi rætt við manninn um að hegðun hans ylli dóttur hans miklum vanlíðan. Hann hafi hinsvegar ekki látið segjast og hafi haldið uppteknum hætti og sótt hart að því að hitta barnið fyrir á skóla og frístundartíma.

Ræddi á þeim tíma barnaverndarstarfsmaður við manninn en í viðræðum barnaverndarstarfsmanns við barnið hafi komið fram að hún óttist pabba sinn og að hann hafi sagt við hana að hann ætli að taka hana með sér. Þá óttist barnið að kærði myndi gera móður hennar eitthvað illt.

Sakfelldur fyrir að ráðast á leikskólakennara

Þá kemur fram að maðurinn hafi verið dæmdur í fangelsi í október 2014, en hann var m.a. sakfelldur fyrir líkamsárás á hendur leikskólakennara við leikskóla þar sem dóttir hans dvaldi. Maðurinn hafi verið ákærður fyrir brot á nálgunarbanni,  en  hafi verið sýknaður fyrir það brot.

Maðurinn sætti svo nálgunarbanni í þriðja sinn á tímabilinu 22. september 2015 – 22. mars 2016.

Í greinargerð lögreglu segir ennfremur, að tvö atvik hafi verið skráð hjá lögreglu frá því síðasta nálgunarbann rann út.

Truflaði altarisgöngu dóttur sinnar

Þann 4. apríl sl. hafi maðurinn mætt í kirkju þar sem dóttir hans var að undirbúa að ganga til altaris. Faðir hennar talaði hátt við dóttur sína og sagði svo að aðrir heyrðu að móðir hennar væri lygin og ómerkileg. Presturinn bað manninn að róa sig og fara út en hann varð ekki við því heldur sagðist vera komin til að sjá dóttur sína. Lögregla kom síðan á vettvang og þau farið út og rætt við lögregluna.

Þann 17. apríl er dóttir hans aftur stödd í kirkju ásamt móður sinni. Faðir hennar mætir aftur í kirkjuna og barnsmóðir hans kallar aftur eftir aðstoð lögreglu.

Þá segir, að beðið sé niðurstöðu Ríkissaksóknara í máli þar sem faðirinn sé grunaður um að hafa brotið gegn dóttur sinni, með því að hafi uppi hótanir og ærumeiðandi móðganir við hana um móður hennar. Telur barnavernd það ekki geti samræmst hagsmunum barnsins að vera í samskiptum eða umgengni við meintan brotamann meðan svo er.

Lögreglan telur ljóst að stúlkan hafi orðið að þola áreiti af hálfu föður síns og ógnandi hegðan. Það liggi fyrir rökstuddur grunur um að hann hafi  brotið gegn fyrrum eiginkonu sinni og dætrum og að hætta sé á að hann haldi áfram með áreiti  og að raska friði dætra sinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert