Endurvinnsla aukin á Seltjarnarnesi

Á myndinni má sjá starfsmenn Seltjarnarnesbæjar þær Öldu Gunnarsdóttur, Gyðu …
Á myndinni má sjá starfsmenn Seltjarnarnesbæjar þær Öldu Gunnarsdóttur, Gyðu Jónsdóttur og Ingibjörgu Ölvisdóttur ásamt Gyðu S. Björnsdóttur sérfræðingi hjá SORPU með pokana sem dreift verður á hvert heimili á Seltjarnarnesi.

Starfsfólk á bæjarskrifstofu Seltjarnarness fékk í dag afhenta fyrstu plastpokana fyrir endurvinnanlegar plastumbúðir. Pokarnir, sem eru úr 100% endurunnu plasti, munu vera bornir á hvert heimili á Seltjarnarnesi, ásamt kynningarefni um tilraunaverkefni sem SORPA og Seltjarnarnes standa saman að.

Tilraunaverkefnið miðar að því að auka hlutfall plastumbúða sem fara til endurvinnslu frá íbúum á Seltjarnarnesi. Árlega má ætla að um 130 tonn af plasti fari í urðun frá íbúum með almennu heimilissorpi en aðeins um 7 tonn berast til endurvinnslu í gegnum grenndargáma og endurvinnslustöðvar.

Gert er ráð fyrir að íbúar flokki plastumbúðir í pokana. Þegar poki er fullur er bundið fyrir og hann settur með almennu sorpi í gráu tunnuna. Í móttökustöð SORPU eru pokarnir svo flokkaðir vélrænt frá öðrum úrgangi og plastið sent til Svíþjóðar til endurvinnslu.

Markmið verkefnisins er að meta gæði og magn plasts sem berst frá sveitarfélaginu til endurvinnslu og þann kostnað sem fellur til vegna meðhöndlunar þess, ásamt því að kanna möguleikann á að nota núverandi hirðukerfi til söfnunar á plastumbúðum. Kostur fyrirkomulagsins er að ekki þarf að bæta við sérstökum tunnum eða fjölga ferðum sorphirðubíla um götur bæjarfélagsins.

Niðurstaða verkefnisins mun nýtast SORPU og sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu til að meta mismunandi söfnunaraðferðir út frá árangri í endurvinnslu og kostnaði. Það auðveldar ákvarðanatöku um framtíðarlausnir á söfnun plastefna á höfuðborgarsvæðinu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert