Fari yfir verkferla vegna eineltis

Markmiðið er að tryggja að starfsstöðvar skóla- og frístundasviðs séu …
Markmiðið er að tryggja að starfsstöðvar skóla- og frístundasviðs séu ætíð vettvangur þar sem börn finni til öryggis og njóti hæfileika sinna. AFP

Skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar vill að fenginn verði óháður aðili til að fara yfir verkferla starfsstöðva skóla- og frístundasviðs vegna eineltis og samskiptavanda barna. Jafnframt verði lagðar fram tillögur til úrbóta, þar á meðal með hliðsjón af breytingum sem fylgt hafa auknum rafrænum samskiptum barna og ungmenna.

Tillaga þessa efnis var samþykkt í ráðinu í gær, að því er segir í tilkynningu frá borginni.

Í tillögunni segir að huga skuli sérstaklega að því að samþætta vinnu allra þeirra er að málefninu koma og samstarfi stoðkerfa borgarinnar, þ.m.t. Barnaverndar og þjónustumiðstöðva. Markmiðið sé að tryggja að starfsstöðvar skóla- og frístundasviðs séu ætíð vettvangur þar sem börn finni til öryggis og njóti hæfileika sinna.

Í greinargerð með tillögunni er m.a. vísað til reglugerðar nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagins í grunnskólum þar sem fram kemur að mikilvægt sé að í grunnskólum sé fjallað um mál sem kunna að hafa áhrif á skólabrag, þ.m.t. mál sem koma upp utan skólatíma og í rafrænum samskiptum.

Á sama fundi skóla- og frístundaráðs lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um stofnun eineltisráðs en afgreiðslu hennar var frestað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert