Borgin endurskoði verkferla í eineltismálum

Skóla- og frístundaráð hefur lagt fram tillögu um að óháð …
Skóla- og frístundaráð hefur lagt fram tillögu um að óháð úttekt á verkferlum borgarinnar þegar kemur að eineltismálum verði framkvæmd. Mynd úr safni. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður skóla- og frístundaráðs, kynnti tillögu ráðsins á borgarstjórnarfundi í dag þess efnis að fenginn yrði óháður aðili til að fara yfir verklag ráðsins þegar kemur að eineltismálum í grunnskólum.

„Einelti er því miður staðreynd í okkar samfélagi og hefur verið lengi þó svo að þetta hugtak hafi ekki komist í hámæli fyrr en fyrir nokkru,“ sagði Skúli á fundi borgarstjórnar fyrr í dag. Þá vísaði hann í nýlegt atvik þar sem ung­lings­stúlka varð fyr­ir lík­ams­árás á bíla­plani Lang­holts­skóla. Atvikið náðist á myndband og vakti mikla athygli.

Sjá frétt mbl.is: „Kom­um, þetta er nóg“

Þetta atvik er því miður ekki einsdæmi,“ segir Skúli, sem vill nýta tækifærið til að rýna í verklag og viðbragðsáætlun borgarinnar. „Því leggjum við til að óháð úttekt á verkferlum borgarinnar þegar kemur að eineltismálum verði framkvæmd.“

Skúli segir að margt gott starf sé unnið í borginni þegar kemur að eineltismálum, en alltaf megi gera betur. „Starfshópurinn Vinsamlegt samfélag vinnur að forvörnum gegn einelti, þar er ferill eineltismála rekinn allt frá forvörnum til inngripa í einstök mál.“ Skúli segir að starfshópurinn sé dæmi um gott forvarnarstarf, hópurinn hafi til að mynda fengið hvatningarverðlaun Menntamálastofnunar í nóvember síðastliðnum.

Tillaga ráðsins var samþykkt í vikunni og vonast Skúli eftir því að hún fái brautargengi hjá borgarráði seinna í þessum mánuði. „Markmið okkar er að tryggja að börn finni fyrir öryggi í skólakerfinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert