365 íhugar að flytja útgáfu til Bretlands

Höfuðstöðvar 365 í Skaftahlíð.
Höfuðstöðvar 365 í Skaftahlíð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjölmiðlafyrirtækið 365 kannar nú möguleikana á að flytja útgáfu prentmiðla til Bretlands, meðal annars til að auka svigrúmið á auglýsingamarkaði. Það gæti orðið upphafið að frekari flutningi fyrirtækisins til útlanda. Þetta kemur fram í leiðara Kristínar Þorsteinsdóttur, útgefanda og aðalritstjóra 365, í Fréttablaðinu í dag sem ber yfirskriftina Ójafn leikur. 

Þar segir hún að stjórnvöld vinni leynt og ljóst að því að Ríkisútvarpið og Netflix verði innan örfárra ára ein eftir á ljósvakanum. Undir stjórn Sjálfstæðisflokksins hafi Rúv verið sköpuð staða til að murka lífið úr frjálsri fjölmiðlun.

Fjölmiðlalögin tímaskekkja

„Fjölmiðlalögin eru tímaskekkja. RÚV fær 11 milljarða ríkisstuðning næstu 36 mánuði. Netflix á Íslandi fær á fjórða hundrað milljóna á ári í áskriftargjöld skattfrjálst. Fyrirtækið kemst hjá því að greiða skatta og skyldur. Netflix þarf ekki að íslenska sitt efni. Á sama tíma eru rándýrar þýðingarskyldur settar á herðar sjálfstæðum fjölmiðlafyrirtækjum. Og Netflix kemst upp með að sýna bannaðar myndir frá morgni til kvölds ef því er að skipta,“ skrifar Kristín.

Skreyta sig með stolnum fjöðrum

Í leiðaranum kemur fram að í nýgerðum þjónustusamningi ríkisins og ríkisútvarpsins segi að Rúv skuli verja 8 prósentum af heildartekjum sínum í ár sem meðframleiðandi að leiknu sjónvarpsefni sjálfstæðra kvikmyndafyrirtækja. Upphæðin hækki og verði orðin 11% árið 2019.

„Þessi háttur hefur ekki annað í för með sér en verðbólgu á markaði og gefur RÚV tækifæri til að halda áfram að skreyta sig með stolnum fjöðrum, eins og gerðist fyrr á árinu. RÚV bauð betur en einkareknu stöðvarnar í sýningarréttinn á Ófærð, þá frábæru þáttaröð, þegar hún kom á markað. Ríkisstjórnendurnir hældu svo sjálfum sér og eignuðu sér heiðurinn af verkinu,“ skrifar hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert