Fræða ætti börn um ólík fjölskylduform

Katrín Bjarney skilaði lokaverkefninu sínu á dögunum.
Katrín Bjarney skilaði lokaverkefninu sínu á dögunum.

Mikilvægt er að starfsmenn leikskóla fái viðeigandi fræðslu til þess að jafnt sé komið fram við alla óháð fjölskylduformi. Þá ætti öllum starfsmönnum leikskóla að vera skylt að fræða börn um ólík fjölskylduform, hvort sem börn samkynhneigðra eru á leikskólanum eður ei. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum rannsóknar Katrínar Bjarneyjar Hauksdóttur í lokaverkefni hennar til BA-prófs í uppeldis- og menntunarfræði.

Tekin voru fjögur viðtöl við fjögur samkynhneigð pör með eitt eða fleiri börn, en tvö af pörunum voru karlkyns og tvö kvenkyns. Í viðtalinu var rætt um viðhorf þeirra til leikskóla, stofnanabundinna fordóma og gagnkynhneigðarhyggju (heterosexisma), ásamt því að því var velt upp hvaða fræðslu börnin þeirra fá á leikskólanum um ólík fjölskylduform. Þau þemu sem komu í ljós voru; fáfræði en góðar móttökur, fordómar og erfiðar spurningar, fræðsla og væntingar.

Flissuðu þegar hún sagðist eiga kærustu

Áhugi Katrínar á þessu umfjöllunarefni kviknaði út frá starfi hennar á leikskóla sumarið 2015, þar sem engin fræðsla var fyrir börnin um ólík fjölskylduform. „Börnin áttu það til að spyrja mig hvort ég ætti mann og hvað hann væri nú að gera í lífinu. Svona var forvitnin mikil og ekki annað hægt en að hafa gaman að því. Nema það að ég gat ekki svarað þeim öðru en því að ég ætti ekki mann, heldur ætti ég kærustu. Þau tóku misvel í þá staðreynd, flissuðu og vildu fá að vita meira. Ég átti nokkrar samverustundir með börnunum það sumarið þar sem við ræddum að fjölskyldur geti verið ólíkar. Út frá þessu fór ég að velta því fyrir mér hvernig það væri fyrir samkynhneigða foreldra að mæta með barn á leikskóla þar sem engin fræðsla væri til staðar, hvorki hjá börnum né starfsmönnum,“ segir hún.

„Ég velti fyrir mér hvaða veruleiki myndi mæta mér og mínum maka í leikskólum landsins í nánustu framtíð og út frá þessum hugleiðingum ákvað ég að gera verkefni á þessu sviði“.

Mikið um fáfræði og þekkingarleysi í garð samkynhneigðar

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að leikskólar eru komnir mislangt með að móta stefnu og framfylgja henni, þegar kemur að fjölmenningu og ólíkum fjölskylduformum. „Áhugavert er að sjá að viðmælendur í rannsókninni telja sig hafa upplifað litla sem enga fordóma, hvorki frá samfélaginu né leikskólum barna sinna. Hins vegar telja þeir að mikið sé um fáfræði og almennt þekkingarleysi í garð samkynhneigðar,“ segir Katrín.

Í rannsókninni kemur fram að leikskólar þurfi að endurskoða stefnu sína gagnvart fræðslu um ólík fjölskylduform, en fræðslan er yfirleitt ekki til staðar nema fjölbreytileikinn ríki nú þegar. „Sjá má að þeir viðmælendur sem hafa barn sitt á leikskóla þar sem fjölmenning og fjölbreytileiki ríkir telja lítil sem engin vandamál vera til staðar. Það lítur út fyrir það að leikskólar hefjist ekki handa við að einblína á opna umræðu um samkynhneigð fyrr en þeir mæta henni.“

Leikskólinn þurfti ábendingu til að laga hlutina

Einn viðmælandinn, sem kölluð er Sandra í ritgerðinni, sagðist stanslaust upplifa sig sem brautryðjanda í leikskóla og grunnskóla barna sinna og að því miður værum við sem samfélag ekki komin lengra en það. Hún og kona hennar, sem kölluð er Guðbjörg í ritgerðinni, lentu þó í meira basli á leikskóla með eldra barn sitt, sem nú er í gunnskóla. Segja þær það hafa verið lítil atvik sem höfðu safnast upp á löngum tíma sem urðu til þess að þær fengu nóg. Þær segja að þær hafi upplifað sig eins og þær væru ekki nógu færar sem mæður. Jafnframt að bók um mismunandi fjölskylduform hafi loksins verið tekin fyrir eftir að þær kvörtuðu og þá lesin fyrir öll börnin. Einnig upplifðu þær eins og það væri kvartað meira undan þeirra barni en öðrum, þeim fannst eins og það væri verið að reyna að finna eitthvað gegn þeim. Þær segja að leikskólinn hafi þurft á ábendingunni að halda til þess að laga hlutina og að eftir það hafi allt gengið vel, sem sagt á lokaárinu hjá drengnum.

Annað par, sem kallað er Guðrún og Linda í ritgerðinni, voru á sama máli með það að starfsmenn leikskóla væru hreinlega ekki búnir undir að taka á móti samkynhneigðum foreldrum þar sem samkynhneigðir foreldrar væru í minnihluta. „Ég held bara að fólk, þú veist, þeir sem eru gagnkynhneigðir og allt í kringum þá er gagnkynhneigt, þeir eru ekkert að spá í að vera tilbúnir fyrir samkynhneigt par, þú veist fyrr en það gerist, þá reyna menn eitthvað að redda hlutunum,“ sagði Linda.

Einfaldara þegar fjölbreytileikinn er til staðar

Viðmælendur voru allir sammála um mikilvægi fræðslu um ólík fjölskylduform á leikskólum. Þeir voru hins vegar með misjafnar skoðanir á því hvernig fræðslunni ætti að vera háttað og að hún þyrfti að vera misjöfn eftir aldri barnanna. Það sama ætti við um hinsegin fræðslu. Viðmælendur voru misjafnlega meðvitaðir um hvaða fræðsla væri nú þegar til staðar á leikskólanum. Tvö pör voru viss um að þetta væri alveg rætt í matartímum og samverustundum. Þau pör sem töldu umræðuna vera til staðar höfðu upplifun af leikskólum þar sem fjölbreytileikinn lifir nú þegar.

Hjá pari sem kallað er Andri og Björn voru til dæmis fleiri samkynhneigðir foreldrar með börn á leikskólanum og hjá Guðrúnu og Lindu var mikil fjölmenning. Þær sögðu gangkynhneigða foreldra sem eru með barn og ekki fráskildir vera í minnihluta á þeirra leikskóla, að það væri meira um blönduð börn og einstæða foreldra. Hjá þessum pörum er fjölbreytileikinn nú þegar til staðar og leikskólinn hefur því ekki átt í vandræðum með að taka á móti þeim.

Allt markaðssett „gagnkynhneigt“ í samfélaginu

Þrátt fyrir þetta segjast foreldrarnir hafa fengið góðar móttökur og viðmót á leikskólum barna sinna. Þau hafi ekki fundið fyrir beinum fordómum, en þó töluðu sumir um fordóma frá samfélaginu. Guðbjörg og Sandra segjast hafa upplifað fordóma frá samfélaginu út frá staðalmyndum, önnur þeirra á að líta út fyrir að vera kvenlegri en hin og að hún eigi því að ganga með börnin. Ásamt því að sú sem lítur út fyrir að vera karlmannlegri eigi að bora á heimilinu. Þær leiðrétta þetta góðfúslega og segja Söndru gera öll slík verk en Guðbjörg gekk með bæði börnin. 

Þá talar maður, sem kallaður er Guðjón, um hvað allt sé markaðssett „gagnkynhneigt“ í samfélaginu og hve lítið sé um teiknimyndir og myndir almennt sem sýni að fjölskylduform þeirra og samkynhneigð sé eðlileg, hann segir: „Það eru einmitt engar væntingar til okkar, það bendir allt til þess að við eigum bara að vera gagnkynhneigð, með tvö börn og [fjölskyldubíl], þá kemur þetta allt aftur að fræðslu, börnin sjá þetta ekki og þurfa að fá að vita af þessu.“

Katrín segir mikilvægt að börn fái fræðslu um mismunandi fjölskylduform.
Katrín segir mikilvægt að börn fái fræðslu um mismunandi fjölskylduform. mbl.is/Styrmir Kári
Katrín fór að velta fyrir sér hvaða veruleiki myndi mæta …
Katrín fór að velta fyrir sér hvaða veruleiki myndi mæta sér og kærustu sinni í leikskólum landsins í nánustu framtíð og út frá þeim hugleiðingum ákvað hún að gera verkefni á þessu sviði.
mbl.is

Bloggað um fréttina