Benedikt formaður Viðreisnar

Benedikt Jóhannesson var kjörinn formaður á stofnfundinum í Hörpu í …
Benedikt Jóhannesson var kjörinn formaður á stofnfundinum í Hörpu í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Stofnfundur stjórnmálaflokksins Viðreisnar var haldinn í dag og var Benedikt Jóhannesson stærðfræðingur kjörinn formaður flokksins. Formaður og stjórn flokksins munu sitja fram að aðalfundi í haust. Þá voru einnig samþykkt grunnstefnumið.

Fundurinn fór fram í Hörpu og mættu um 400 manns, eftir því sem kemur fram í tilkynningu frá flokknum. Í stjórn voru kjörin þau Ásdís Rafnar lögfræðingur, Bjarni Halldór Janusson háskólanemi, Daði Már Kristófersson hagfræðingur, Geir Finnsson markaðsstjóri, Georg Brynjarsson hagfræðingur, Hulda Herjólfsdóttir Skogland alþjóðastjórnmálafræðingur, Jenny Guðrún Jónsdóttir kennari, Jón Steindór Valdimarsson lögfræðingur, Jóna Sólveig Elínardóttir alþjóðastjórnmálafræðingur, Jórunn Frímannsdóttir hjúkrunarfræðingur, Katrín Kristjana Hjartadóttir stjórnmálafræðingur, Sigurjón Arnórsson viðskiptafræðingur, Vilmundur Jósepsson, fyrrverandi formaður Samtaka atvinnulífsins, og Þórunn Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar HSS.

Grunnstefna Viðreisnar var samþykkt á fundinum. Segir í tilkynningu að grunnstefna flokksins sé að byggja upp samfélag þar sem einstaklingar vilji og geti nýtt hæfileika sína til fulls. Mikilvægt sé að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum og gæta þess að traust ríki í stjórnmálum og í garð stofnana ríkisins. Efla beri málefnalega umræðu og góða stjórnarhætti með áherslu á gegnsæi og gott siðferði. 

Önnur áhersluatriði sem samþykkt voru eru:

  • Almannahagsmunir gangi framar sérhagsmunum. Allir einstaklingar, heimili og fyrirtæki skulu njóta jafnræðis.
  • Náttúruauðlindir landsins eru sameign þjóðarinnar. Þær ber að nýta skynsamlega og greiða markaðsverð fyrir afnot. Óskert náttúra er verðmæt auðlind.
  • Félagslegt réttlæti, sem byggt er á samhug og ábyrgð, tryggir jafnan rétt til menntunar og velferðarþjónustu.
  • Vestræn samvinna eykur öryggi og hagsæld þjóðarinnar og er forsenda sterkrar samkeppnishæfni Íslands.
  • Jafnrétti stuðlar að aukinni velmegun og tryggir einstaklingum frelsi til að fullnýta hæfileika sína og krafta.
  • Neytendur eiga rétt á að búa við umhverfi þar sem hagsmunir þeirra eru í fyrirrúmi.
  • Þróttmikið menningarlíf er sérhverri þjóð mikilvægt og það ber að styðja og efla.
mbl.is