Fjölmargir baða sig í heitri á

Nokkur hundruð manns leggja leið sína í Reykjadal á degi …
Nokkur hundruð manns leggja leið sína í Reykjadal á degi hverjum. ljósmynd/Iceland Activities

Ferðamönnum sem lagt hafa leið sína að heitri á í Reykjadal við Hveragerði til að baða sig hefur fjölgað gríðarlega síðustu tvö ár. Landið tilheyrir sveitarfélaginu Ölfusi, en til að komast að ánni þarf að ganga í tæpa klukkustund á gönguleið sem liggur frá Hveragerði.

Með þessari miklu fjölgun er þó ljóst að umgengni á svæðinu versnar og er mikið magn af rusli skilið þar eftir á degi hverjum. Þá eru engin salerni á svæðinu og þekkist það því að fólk hafi gert þarfir sínar úti í náttúrunni.

Oftar en ekki er þéttsetið í ánni.
Oftar en ekki er þéttsetið í ánni. ljósmynd/Iceland Activities

Ótrúlegustu hlutir skildir eftir

„Við erum ekki með tölur yfir þetta en við sjáum að það er gígantísk fjölgun sem byrjaði í fyrra,“ segir Sigurdís Lilja Guðjónsdóttir, forstöðumaður Upplýsingamiðstöðvar Suðurlands, en bætir við að umgengni á svæðinu sé langt frá því að vera góð.

„Einhverra hluta vegna virðist fólk skilja eftir allavega úrgang, fatnað, tjöld, grill og hvaðeina þarna. Það eru ótrúlegustu hlutir skildir eftir sem er mjög sorglegt,“ segir hún. Ekki eru markviss þrif á svæðinu, en að sögn Sigurdísar hafa heimamenn og fleiri sem heimsækja það stundum tekið rusl með sér niður.

Hún segir sambærilega umgengni ekki þekkjast á vinsælustu gönguleiðum landsins, en bendir á að þar sem um er að ræða tiltölulega stutta og þægilega gönguleið geti allir lagt leið sína í Reykjadal og erfitt sé að hafa yfirsýn yfir fjölda og umgengni. Til þess yrði að vera starfsmaður á svæðinu.

Göngupallar voru settir upp á svæðinu fyrir nokkrum árum síðan.
Göngupallar voru settir upp á svæðinu fyrir nokkrum árum síðan. ljósmynd/Iceland Activities

Við hælana á Gullfoss og Geysi

Andrés Úlfarsson, eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins Iceland Activities, hefur farið ótal sinnum upp í Reykjadal, og segir muninn á fjölda fólks sem þangað fer gríðarlegan á milli ára. „Ég hjólaði þarna upp eftir páskana 2010 og þá var ég einn í læknum en um páskana núna fóru 2-300 manns þarna upp eftir. Núna í vetur, yfir köldustu mánuðina, var meira af fólki þarna á hverjum degi en var um sumarið 2010,“ segir hann og bætir við að mikinn mun megi sjá á slóðunum frá því í fyrra.

„Ég ætla ekki að segja að þetta sé eins og Gullfoss og Geysir en þetta kemur alveg við hælana á því. Fólk virðist mjög meðvitað um þennan stað og langar að fara þangað,“ segir hann, en bætir við að ýmsar hættur séu á svæðinu þar sem um hverasvæði er að ræða og því þurfi fólk að vera upplýst áður en það heldur af stað.

200 bílar á svæðinu á góðum degi

Sigurdís segist ekki geta bent á eina ástæðu þessarar miklu fjölgunar ferðamanna á svæðinu en bendir þó á að fjallað sé um svæðið í öllum helstu túristabókum og auk þess hafi almenn fjölgun ferðamanna til landsins verið mikil. „Við höfum fengið fyrirspurnir frá aðilum sem spyrja hvort við viljum ekki auglýsa Reykjadal en við höfum alltaf svarað neitandi því við þurfum þess ekki og viljum ekki fá meira. Það má í raun ekki vera meira,“ segir hún og heldur áfram:

„Ég heyrði af því að eldra fólkið í bænum fór í gamni sínu að telja bílana þarna á svæðinu í fyrrasumar þegar það var á göngu og það var ein sem taldi 200 bíla á góðum degi.“

Reykjadalur við Hveragerði.
Reykjadalur við Hveragerði. mbl.is/Árni Sæberg

Engir klefar til að skipta um föt

Gönguplankar voru settir upp á svæðinu fyrir tveimur árum eftir að mikið hafði rignt og farið var að sjá töluvert á landinu. Var það gert af hálfu Ölfuss, Hveragerðisbæjar og ferðaþjónustufyrirtækja, en hægt er að fjarlægja plankana svo landið geti gróið til baka. Með tilkomu plankanna er aðgengi á svæðinu mjög gott og segir Sigurdís að hugsanlega sé einnig hægt að rekja einhvern hluta hins mikla straums ferðamanna til þess.

Engir klefar eru á svæðinu til að skipta um föt en þegar plankarnir voru settir upp voru einnig sett upp nokkurs konar skilrúm sem fólk getur skýlt sér á bak við. Að sögn Sigurdísar taka þó sumir tjald með sér upp að ánni til að geta skipt um föt inni í því.

Tjalda í leyfisleysi á svæðinu

Ekki er leyfilegt að tjalda á svæðinu, en samt sem áður virðast ferðamenn ekki láta það stöðva sig. Sigurdís segist hafa fengið fjölda fyrirspurna frá ferðamönnum um það hvort leyfilegt sé að tjalda á svæðinu en þeim sé alltaf svarað neitandi. Að tjalda til þess eins að skipta um föt inni í tjaldinu sé þó vissulega í góðu lagi.

„Stærsta vandamálið sem ég sé í þessu er þegar fólk er að koma þarna uppeftir með tjöld og gista því það er engin salernisaðstaða og fólk verður að gera þarfir sínar einhvers staðar,“ segir Andrés.

Ekki kjósa þó allir sem leggja leið sína um svæðið að baða sig í ánni, en fjölmargar gönguleiðir liggja þaðan. Að sögn Sigurdísar fara margir í kringum Ölkelduhálsinn, en einnig sé hægt að ganga alla leið niður á Nesjavelli.

mbl.is