Misnotuð ofan á Stubba-sængurfötum

Allt að fjórum sinnum líklegra er að fötluð kona verði fyrir kynferðisbroti en fatlaður karl. Gerendur tengjast flestir brotaþola og vita þar af leiðandi um fötlunina. Oftast er um stakt brot að ræða, verknaðirnir eru grófir og eru brotaþolar þvingaðir til samfara í flestum tilvikum.

Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Svölu Ísfeld Ólafsdóttur, dósents við lagadeild Háskólans í Reykjavík, á málþinginu Fatlaðir þolendur kynferðisbrota sem fór fram í HR í dag.

Erindið bar yfirskriftina Rannsókn á íslenskum dómum vegna kynferðisbrota gegn fötluðum þolendum og fjallaði um niðurstöður rannsóknar sem Vigdís Gunnarsdóttir lögfræðingur vann undir leiðsögn Svölu vegna lokaverkefnis til meistaraprófs í lögfræði.

Í einum dómanna sem notaðir voru við rannsóknina var fötluð kona handjárnuð á höndum og fótum og fest við ofn. Hafðar voru samfarir við hana gegn vilja hennar, hún bitin og lamin með hundaól og henni ógnað með hnífi í hjartastað. Þá voru þvottaklemmur klemmdar á geirvörtur hennar og skapabarma og hún brennd með sígarettu. Í þessu máli beitti gerandi óvenju grófu ofbeldi ef litið er til dómanna í heild sinni.

Þolendur oftast andlega fatlaðir

Rannsóknin tók til dóma héraðsdóma og Hæstaréttar árin 1920-2012 þar sem ákært var fyrir brot gegn 2. mgr. 194. gr. eða 197. gr. hgl. og þolandi er fatlaður, andlega eða líkamlega.

Í öðru lagi var leitað í dómum í málum vegna kynferðisbrota með leitarorðum eins og „fatlaður“, „þroskahömlun“, „þroskaheftur“, „greindarskertur“, „vangefinn“, „einhverfur“, „misþroska“, „með andlega annmarka“, „tornæmi“ eða „þroskaraskanir“ og kannað hvort þau ættu við brotaþola. Tuttugu og fimm dómar fundust á hvoru dómsstigi.

Í dómunum fimmtíu var sérstaklega tekið fram í 74% ákæruskjala að brotaþoli væri fatlaður. Í þeim 26% tilvika þar sem það var ekki tekið fram var fötlun brotaþola m.a. væg þroskahömlun, greindarskerðing, hreyfihömlun og heyrnarskerðing.

Í langflestum tilvikum reyndist brotaþoli andlega fatlaður, eða í 82% tilvika. Brotaþoli var bæði andlega og líkamlega fatlaður í 10% tilvika og í 8% tilvika var brotaþoli einungis líkamlega fatlaður. Ákæruskjölin hafa þróast í þá átt að vera nákvæmari og ítarlegri en þau voru, sagði Svala.

Átján brotaþolar voru börn, eða 43,9%. Þolendur voru alls 41, þar af 32 konur en 9 karlar. Samkvæmt því eru fatlaðar konur fjórum sinnum líklegri til að verða fyrir kynferðisofbeldi en karlar.

„Fræðimenn telja að fatlaðir séu í fjórum til tíu sinnum meiri hættu á að verða fyrir kynferðisofbeldi en aðrir. Almennt talið að hættan aukist um helming vegna fötlunarinnar. Aukin hætta ef hinn fatlaði á tjáskiptaörðugleika að stríða. Heyrnarlaus börn hafa reynst viðkvæmur hópur í þessu sambandi,“ sagði Svala. Meðaldur brotaþola var 24 ár, sá yngsti þriggja ára og sá elsti 69 ára.

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Golli

Voru þar sem þau áttu að vera örugg

Í 64,3% tilvika voru gerendur einstaklingar sem þolendur áttu að geta treyst vegna fjölskyldutengsla, vináttu eða umönnunarhlutverks. Brotin áttu sér oftast stað á yfirráðasvæði geranda eða í 59,6% tilvika, s.s. á heimili hans, í bifreið hans, vinnustað hans, á sameiginlegu heimili aðila eða í hjólhýsi geranda. Brotin eru almennt gróf. Algengast var að þolandi væri þvingaður til kynferðismaka.

Í flestum tilvikum, eða í 39% tilvika, sagði brotaþoli ættingja frá því að hann hefði verið beittur kynferðislegu ofbeldi og í 12,2% tilvika kærði brotaþoli sjálfur. Í 29,2% tilvika kemur tilkynning um brot í gegnum yfirvöld.

Með yfirvöldum er átt við félagsmálayfirvöld, skóla, lögreglu og umönnunaraðila sem eru starfsmenn á sambýlum þar sem þolandi býr eða stuðningsfulltrúa. Þannig tilkynnti brotaþoli umönnunaraðila í 7,3% tilvika.

Þvingaðar til að hafa þvag- og saurlát

Svala nefndi sem dæmi dóm Hæstaréttar nr. 290/2000. Í því máli var gerandi talinn þjást af þvagsækni (e. urophilia). Hann beitti fjórar stúlkur kynferðislegu ofbeldi og þvingaði m.a. þrjár þeirra til að hafa ýmist þvag- og/eða saurlát í baðkar, poka eða glös. Stúlkurnar voru heyrnarskertar/heyrnarlausar og ein þeirra auk þess misþroska og með tornæmi. Verulegar líkur voru taldar á að gerandinn væri haldinn barnagirnd.

Hún nefndi einnig dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-167/1998. Í því máli beitti gerandi óvenju grófu ofbeldi. Hann m.a. handjárnaði brotaþola á höndum og fótum og festi við ofn, hafði samfarir við hann gegn vilja hans, beit hann og lamdi með hundaól, ógnaði honum með hnífi í hjartastað, klemmdi þvottaklemmur á geirvörtur hans og skapabarma og brenndi með sígarettu. 

Svala lauk máli sínu á þessum orðum:

„Í stofu prýða innrammaðar myndir af hundum veggi og einnig má sjá bangsa, litla skraut­muni og dúkkuvagn á gólfi. Svefnherbergi hennar er lítið og þar hefur hún raðað fjölda smástytta á skrifborð og í gluggakistu. Á náttborði er gulur sparigrís og við hlið þess uppbúið rúm.

Er óumdeilt að ákærði hafði samræði við hana í rúmi þessu og að þau hafi legið ofan á sæng með sama sængurfatnaði og sést á ljós­myndunum. Er hér um að ræða sængur- og koddaver með litprentaðri mynd af stubbunum eða „Teletubbies“, sem eru vinsælt sjónvarpsefni hér á landi hjá yngstu kynslóðinni.“

Þennan texta er að finna í dómi í Hæstaréttar nr. 47/2003 þar sem brotið var gegn 47 ára þroskaheftri konu.

mbl.is