Tímamót hjá United Silicon í Helguvík

Unnið er að því að klára verksmiðjuna sjálfa. Gert er …
Unnið er að því að klára verksmiðjuna sjálfa. Gert er ráð fyrir að framleiðsla hefjist í lok júlí. Ljósmynd/United Silicon

Á mánudagskvöldið kom fyrsti farmurinn af hráefni fyrir nýtt kísilmálmver United Silicon í Helguvík. Um var að ræða tæplega sex þúsund tonn af kvars, steintegund sem er meðal grunnefna sem notuð eru við kísilmálmvinnsluna. Í næsta mánuði munu sendingar af öðrum hráefnum berast og í lok mánaðarins er gert ráð fyrir að prófanir hefjist. Gert er ráð fyrir að framleiðsla hefjist að fullu í lok júlí. Þetta segir Helgi Þórhallsson, forstjóri fyrirtækisins, í samtali við mbl.is.

Nægir í fimm vikna framleiðslu

Kvarsið kom með skipi frá Spáni en þar var farmurinn lestaður 17. maí. Helgi segir að samtals hafi verið um 5.775 tonn að ræða, en þegar framleiðsla verður komin á fullt nægir það í um fimm vikna framleiðslu. Úr kvarsi fæst kísill, en við kísilmálmvinnslu er einnig notast við kol, trjáflísar og viðarkol. Þunginn af þeim efnum mun að sögn Helga koma í lok júní og byrjun júlí.

Fyrsti farmurinn kom á mánudagskvöldið frá Spáni.
Fyrsti farmurinn kom á mánudagskvöldið frá Spáni. Ljósmynd/United Silicon

Ástæðan fyrir því að kvarsið er að koma svona snemma er að sögn Helga að búið var að semja um afhendingu og þá vildi fyrirtækið einnig prófa fyrstu losunina með góðum fyrirvara. Segir hann að allt hafi gengið vel í gær og losunin tekið skemmri tíma en reiknað var með.

„Þetta eru ákveðin tímamót, það nálgast að við förum í framleiðslu og það er spenna í kringum þetta,“ segir Helgi.

5.775 tonn af steintegundinni kvars.
5.775 tonn af steintegundinni kvars. Ljósmynd/United Silicon

Í miðju ráðningarferli

Fyrirtækið er nú í því ferli að ráða starfsfólk en nýlega var auglýst eftir fólki. Segir Helgi að fjöldi umsókna hafi borist og að vonandi verði búið að fara í gegnum þær fyrir lok mánaðarins. Segir hann að í heild verði um 60 manns sem vinni við framleiðsluna hjá verksmiðjunni, en svo muni fyrirtækið gera samning við þriðja aðila varðandi umsýslu við höfnina og fleira þannig að heildarstarfsmannafjöldinn vegna verksmiðjunnar verði eitthvað meiri.

Bygging verksmiðjunnar er ekki að fullu lokið, en Helgi segir verkinu miða vel áfram og vera langt á veg komið. Í upphafi verður einn stór kísilmálmofn í verksmiðjunni sem er 32 megawatta. Í 10 ára áformum verksmiðjunnar var horft til þess að hægt væri að reisa allt að fjóra slíka. Framleiðslugeta verksmiðjunnar verður með fyrsta ofninum 22–23 þúsund tonn á ári af kísilmálmi.

Kvars er grunnframleiðslueining fyrir kísilmál, en í framleiðsluna er einnig …
Kvars er grunnframleiðslueining fyrir kísilmál, en í framleiðsluna er einnig notast við kol, trjáflísar og viðarkol. Ljósmynd/United Silicon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert