Gekk ekki gegn úrskurði kærunefndar útlendingamála

Nígeríumaðurinn Eze Henry Okafor var fluttur til Svíþjóðar nú í …
Nígeríumaðurinn Eze Henry Okafor var fluttur til Svíþjóðar nú í morgun. Útlendingastofnun hafnar því að flutningurinn hafi gengið gegn úrskurði kærunefndar útlendingamála. Sigurgeir Sigurðsson

Útlendingastofnun hafnar því að stofnunin og alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra hafi gengið gegn úrskurði kærunefndar útlendingamála með flutningi á Nígeríumanninum Eze Henry Okafor til Svíþjóðar nú í morgun.

Okafor, sem sótti um hæli á Íslandi fyrir fjórum árum, var fluttur með lögreglufylgd úr landi, en samtökin No Borders stóðu fyrir mótmælum í vél Icelandair og hafa birt myndband af handtöku hans. Tvær konur voru handteknar þegar þær hvöttu aðra farþega í vélinni til að standa upp og mótmæla brottvísuninni. 

Katrín Theodórsdóttir, lögmaður Eze Henry Okafor, sagði í viðtali við RÚV að ákvörðun Útlendingastofnunnar um að vísa skjólstæðingi sínum úr landi væri andstæð íslenskri stjórnskipun.

Kærunefnd útlendingamála hefði með úrskurði sínum 10. maí sl. komist að þeirri niðurstöðu að sex mánaða fresturinn til að endursenda Okafor til Svíþjóðar samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni væri liðinn og ábyrgð sænskra stjórnvalda á að afgreiða umsókn hans um hæli því fallin niður.  

Í yfirlýsingu Útlendingastofnunar segir hins vegar að í úrskurði kærunefndar frá 10. maí hafi ekki verið lagt fyrir Útlendingastofnun að taka umrætt mál til efnismeðferðar og sérstaklega sé tekið fram í úrskurðinum að ekki sé fjallað um það hvort heimild til endursendingar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar sé enn gild, né heldur sé tekin afstaða til þess í úrskurðinum.

Taldi líklegt að fresturinn væri liðinn

Í úrskurðinum sé hins vegar leiðbeint um að afla upplýsinga hjá Útlendingastofnun um það hvort frestur til framkvæmdar á ákvörðun skv. Dyflinnarreglugerðinni sé liðinn, en nefndin taki enga afstöðu til þess hvort svo sé.

„Fullyrðingar og fjölmiðlaumfjöllun um að framkvæmd fyrirliggjandi úrlausna íslenskra yfirvalda, sem staðfestar voru fyrir dómstólum, hafi gengið í berhögg við úrskurð kærunefndar eru því ekki á rökum reistar,“ segir í yfirlýsingu Útlendingastofnunnar.

Fram komi í leiðbeiningum kærunefndar útlendingamála í úrskurðinum að nefndin hafi talið líklegt að frestur til að framkvæma ákvörðun á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar væri liðinn.

Hinn 19. maí sl. hafi talsmaður hælisleitandans óskað eftir því við Útlendingastofnun að málið yrði tekið til efnismeðferðar hjá stofnuninni, sem svarað erindinu næsta dag og útskýrði að ekki væru forsendur fyrir að taka málið til efnismeðferðar.

Gera ekki athugasemd við yfirlýsinguna

„Þá var talsmanni einnig greint frá því að vegna háttsemi umbjóðanda hennar, sem leiddi til þess að ekki var unnt að framkvæma ákvörðunina, hefði frestur til framkvæmdar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar framlengst í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.“ Talsmanni Okafor hafi því mátt vera fullljóst hvernig málinu var háttað.

„Framkvæmd alþjóðadeildar Ríkislögreglustjóra á úrlausnum íslenskra yfirvalda í málinu var því í fullu samræmi við lög og reglur og úrskurð kærunefndar frá 10. maí sl.,“ segir í yfirlýsingunni.

Pétur Dam Leifsson, varaformaður kærunefndar útlendingamála, segir kærunefndina ekki gera athugasemd við yfirlýsingu Útlendingastofnunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert