Kominn með erlendan fagfjárfesti að fluglestinni

Ein hugmynda um legu Fluglestarinnar gerir ráð fyrir að hún …
Ein hugmynda um legu Fluglestarinnar gerir ráð fyrir að hún nái að Straumsvík og almenningssamgöngur höfuðborgarsvæðisins taki við farþegum þar. mbl.is/Árni Sæberg

Búið er að stofna þróunarfélag um fluglest milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins og þá hefur erlendur fagfjárfestir, Per Aarsleff A/S, verið fenginn til að koma að verkefninu með bæði fjármagn og þekkingu. Þetta kom fram í kynningu Runólfs Ágústssonar, verkefnisstjóra Fluglestarinnar, á málþingi um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu sem fór fram í Listasafni Reykjavíkur nú í morgun.

Runólfur segir danska fyrirtækið Per Aarsleff A/S vera stórt í lagningu lesta, en hundruð manns starfi í lestardeild þess. „Þeirra aðkoma skapar okkur aðgang að mikilvægri sérþekkingu,” segir hann.

Unnið hefur verið að fluglestarverkefninu á óformlegum grunni sl. þrjú ár og nemur kostnaðurinn hingað til um um 170 milljónum króna.  „Nú er verið að formgera þróunarfélag sem tekur þá við verkefninu og gengur frá samningi við sveitarfélögin.“ Stofnun félagsins veiti tækifæri á að fá inn nýja aðila með fjármagn og þekkingu sem sé nauðsynlegt svo hægt sé að taka verkefnið lengra.

Samstarfssamningurinn í ferli

Runólfur segir samstarfssamning við sveitarfélögin nú vera í ferli. „Borgarráð Reykjavíkur afgreiddi í gær eignaraðild sína að félaginu og samstarfssamningurinn hefur þegar verið samþykktur hjá fimm af átta sveitarfélögum.“  Garðabær og öll sveitarfélögin á Suðurnesjum séu búin að samþykkja samninginn, en hann  bíði afgreiðslu hjá Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi. „En við gerum ráð fyrir að hann verði afgreiddur á næstu vikum.“

Þrjár tillögur að legu fluglestarinnar voru kynntar á málþinginu og hafa þær mismikil samlegðaráhrif  við Borgarlínuna, þ.e. nýjan samgönguás almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu.  Runólfur segir hluta af skipulagssamstarfi fluglestarinnar við sveitarfélögin felast í því að finna heppilegustu leguna. „Þar eru tvenn sjónarmið uppi sem þarf að samþætta. Annars vegar hvað hentar sveitarfélögunum og þessum samfélögum best og hins vegar arðsemi verkefnisins.“

Mega ekki keppa hvort við annað

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir Fluglínuna vera verkefni sem þurfi að greina í samhengi við Borgarlínuna.„Það er mjög mikilvægt að þessi verkefni séu ekki að keppa hvort við annað, heldur gangi vel saman og allt er þetta hluti af framtíð sem er að færast býsna nálægt okkur. Þannig að á þessu ári og því næsta þarf að taka margar stórar ákvarðanir sem tengjast þessu,“ segir Dagur.

Runólfur segir þó ekki enn liggja fyrir hvað muni koma út úr vinnu varðandi legu Fluglínunnar, en hluti þeirrar vinnu sé samningur sem þróunarfélagið er að gera við alþjóðlega verkfræðifyrirtækið Tractebel, sem sérhæfir sig í framkvæmdum sem þessum.  „Við erum að semja við þá um að gera markaðsgreiningu og könnun meðal erlendra ferðamanna í sumar og vetur og að leggja í framhaldi mat á mismunandi kosti í legu fluglestarinnar.“

Runólfur segir að þótt margir hafi efast um hagkvæmni fluglestar þegar lagt var af stað fyrir þremur árum, þá vinni flest með þessu verkefni nú.

„Það sem er að gera þetta verkefni stöðugt betra hvað arðsemi og raunhæfni varðar er hvað ferðamönnum hefur fjölgað gríðarlega mikið. Hluti af þeim upplýsingum sem við birtum í morgun var greining á áhrifum á umferð á höfuðborgarsvæðinu. Þar kemur í ljós að þetta verkefni mun draga úr umferð á yfirborðinu um 2–10% eftir leiðum,“ segir hann og kveðst þar eiga við þær leiðir sem liggja frá suðurhluta Hafnarfjarðar og niður í bæ. „Og það munar um minna á tímum þar sem umferð þyngist stöðugt á höfuðborgarsvæðinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert