Gekk um og sektaði fólk

Hér er staðið fyllilega löglega að málum.
Hér er staðið fyllilega löglega að málum. mbl.is/Árni Sæberg

Karlmaður gekk á dögunum um Vesturbæ Reykjavíkur og sektaði bifreiðar sem hann taldi að lagt væri ólöglega. Til þess hefur hann þó enga heimild haft. Fjallað er um málið á fréttavef Ríkisútvarpsins en þar kemur fram að sektirnar séu í nafni nýstofnaðs fyrirtækis sem kallast Sektarinn ehf., en það hafi samið við innheimtufyrirtækið Inkasso um að innheimta sektirnar. Þar á bæ verður málið tekið til skoðunar og tilkynnt til lögreglunnar.

Gefið var upp símanúmer á sektarmiðunum, bankareikningur og kennitala. Fréttamaður Ríkisútvarpsins hringdi í númerið og svaraði kona sem gaf þá skýringu að hún og maðurinn hennar hefðu tekið upp á þessu til þess að verða sér úti um fé. Þau hafi talið sig hafa leyfi Ríkisskattstjóra en síðan hafi embættið hætt við það. Þau hafi alls ekki vitað að ólöglegt væri að innheimta sektir með þessum hætti. Bað hún alla hlutaðeigandi afsökunar.

Konan sagði aðspurð að hún og maðurinn hennar hefðu sektað samtals 17 bifreiðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert