Pólitíkin vill ekkert læra

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Styrmir Kári

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagðist í eldhúsdagsræðu á Alþingi í kvöld eiga sífellt erfiðara með að átta sig á íslenskri pólitík. Það væri pólítík sem virtist ekkert læra.

Hann hefði lært margt á þeim tíma sem hann hefði setið á þingi. Það hefði verið mjög lærdómsríkur tími. Hins vegar ætti hann í sífellt meiri erfiðleikum með að útskýra fyrirbærið pólítik.

Pólitíkin hefði til að mynda ekkert lært á lekamálinu. Eftir fordæmalaus mótmæli í vor, vegna afhjúpana Panamaskjalanna, hefði forsætisráðherra hrökklast frá en ríkisstjórnin haldið velli. „Og áfram hélt pólitíkin.“

Einnig átti að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar, en ekkert orðið úr því. Þar áður hefði verið gerð tilraun til þess að slíta aðildarferlinu við Evrópusambandið.

„Og áfram hélt pólitíkin án þess að læra,“ sagði Helgi Hrafn. „Hvernig getur þetta verið?“

Hann sagðist langa að trúa því að kosningar færu fram í haust, eins og forystumenn ríkisstjórnarinnar hefðu gefið fyrirheit um. Ekki vegna þess að minnihlutinn á þinginu hefði beðið um kosningar í haust, heldur vegna þess að hann vonaðist til þess að enn eitt loforðið yrði ekki svikið.

„Eins mikið og mig langar að trúa því þegar ég heyri málsmetandi þingmenn í stjórnarmeirihlutanum fullyrða að auðvitað verði kosið í haust, þá get ég ekki trúað því,“ sagði hann.

Eina mynstrið sem hann sæi af atburðum síðustu ára væri valdagræðgi. Stjórnmálamenn vildu halda í völdin. 

Stjórnmálamenn ættu að hugsa sig um fyrir komandi kosningar. Vonandi yrði áfram spurn eftir breytingum sem storka þessu valdi. Það væri góð lexía.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert