Rétt að rannsaka barkaígræðslu

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra telur rétt að Alþingi taki til skoðunar hvort ástæða sé til þess að koma á fót rannsóknarnefnd til þess að rannsaka aðkomu íslenskra stofnana að meðferð sjúklings sem undirgekkst umdeilda barkaígræðslu árið 2011 við Karolinska háskólasjúkrahúsið í Svíþjóð. Þetta kom fram í máli hans á Alþingi í dag þar sem hann svaraði munnlegri fyrirspurn frá Elínu Hirst, þingmanni Sjálfstæðisflokksins.

Kristján sagði unnið að minnisblaði um málið á sínum vegum sem sent yrði til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á næstunni og hún beðin að taka formlega afstöðu til þess. Fór hann yfir málið og þær rannsóknir sem hafnar væru á málinu erlendis. Maðurinn sem um ræðir var búsettur hér á landi. Hann leitaði sér lækninga á Landspítalanum en í ljós kom að hann var með krabbamein í hálsi. Var ákveðið að senda hann til Svíþjóðar þar sem til stóð að græða í hann plastbarka. Svo fór hins vegar að maðurinn lét lífið.

Elín spurði enn fremur hvort hér á landi væru starfandi læknar sem hefðu engra hagsmuna að gæta við rannsókn þessa máls sem gætu rannsakað það. „Ég get ekki svarað því hér. Fyrst þarf að liggja fyrir hvaða sérþekkingu þarf til til að taka þátt í slíkri rannsókn og hvort einhverjir læknar sem starfa hér á landi hafi þá þekkingu. Síðan þarf að meta hæfni eða hæfi þeirra á grundvelli hæfisreglna stjórnsýslulaganna,“ sgaði Kristján í svari sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert