Tímar meðvirkni eru liðnir

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Styrmir Kári

Tengsl stjórnmálamanna við vafasama viðskiptahætti aflandsfélaga, og það að hafa vísvitandi leynt þeim tengslum, reyndist þjóðinni ómögulegt að kyngja. Enda er það gjörsamlega óásættanlegt og hreinlega ekki heiðarlegt.

Þetta sagði Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, í eldhúsdagsræðu sinni á Alþingi í kvöld.

Ekkert skrýtið væri við það að þjóðfélagið færi á hvolf og stjórnmálalífið væri lamað eftir.

Hann sagðist fyrir nokkrum vikum hafa þitt þýska fjölmiðlakonu sem spurði hann beint út: „Nú hefur komið í ljós að það eru fleiri Íslendingar í Panamaskjölunum en í nokkru öðru landi miðað við höfðatölu. Finnst þér það vera merki um að Ísland sé óheiðarlegra samfélag en önnur?“

Óttar viðurkenndi að þessi spurning hefði fengið verulega á sig. „Hún gerði það vegna þess að ég upplifi Íslendinga upp til hópa sem heiðarlegt og réttlátt fólk. En það er ekki hægt að loka augunum fyrir því að það er eitthvað brotið hjá okkur. Við þurfum að viðurkenna það og við þurfum að taka á því.

Íslenskt samfélag er nefnilega að svo mörgu leyti frábært. Ísland er ríkt land af náttúruauðlindum. Þjóðin er kraftmikil og í eðli sínu bjartsýn. Við höfum það að mörgu leyti gott. En síðustu mánuðir hafa leitt í ljós að það lúra vandamál undir glansmyndinni,“ sagði hann.

Lóttóvinningar á borð við aukinn ferðamannastraum, makrílgegnd og lágt olíuverð hefðu stuðlað að endurreisn efnahagslífsins. En það væri ekki hægt að treysta á lottóvinninga. Það þyrfti meira til.

„Nýtum lærdóminn af Panamaskjölunum til breytinga. Breytum kerfinu þar sem það er ekki að virka. Byggjum á því sem virkar og gerum það enn betra. Tímar meðvirkni og fortíðarþrár eru liðnir. Það er búið að gefa því séns. Það hefur ekki gengið upp,“ sagði hann.

„Ömurlegur“ þingvetur

Óttarr sagði þingveturinn sem nú væri að líða hefði verið hreint út sagt ömurlegur. Það væri eina orðið yfir það.

„Fólk var rétt farið að draga andann eftir efnahagshrunið 2008 þar sem kom í ljós að grundvallarforsendur reyndust að mörgu leyti byggðar á sandi. Við trúðum og vonuðum svo heitt og innilega að við værum komin vel á veg með að komast á lappirnar, að við ætluðum að læra af þessum mistökum.

En uppljóstranir Panamaskjalana voru eins og högg í magann. Þau staðfestu að það væri dýpra siðrof í íslensku samfélagi en gefið hafði verið í skyn. Þau staðfestu að enn búa tvær þjóðir í þessu landi. Þeir sem búa við forréttindi, innmúruð völd, tækifæri umfram aðra, og síðan eru það allir hinir,“ sagði hann.

Frá Alþingi í kvöld.
Frá Alþingi í kvöld. mbl.is/Styrmir Kari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert