„Þetta er óheiðarlegt fólk“

„Ég er bara kominn til að vinna,“ sagði lásasmiðurinn, þegar hópur fólks á vegum Menningarseturs múslima stoppaði hann af fyrir framan Ýmishúsið í Skógarhlíð í dag.

Ýmishúsið hefur hýst Menningarsetur múslima síðastliðin ár en félagið hefur átt í miklum samstarfsörðugleikum við eigendur hússins, Stofnun múslima. Í maí úrskurðaði Héraðsdómur Reykjavíkur að bera bæri Menningarsetrið út. Menningarsetrið hefur áfrýjað dómnum til Hæstaréttar en þar sem ekki bar að fresta réttaráhrifum fékk Menningarsetrið tilkynningu í síðustu viku um að félagið yrði borið út í dag.

Um tíu manna hópur varnaði lásasmiðnum inngöngu þegar hann kom í Skógarhlíðina í morgun. Eina konan í hópnum, Luiza el Bouazzati, hafði sig einna mest í frammi og þverneitaði að hleypa lásasmiðnum að húsinu. „Nei, ég er að tala við hann,“ sagði hún við mann sem beindi til hennar orðum á arabísku. „Ekki skemma húsið, nei þetta er fyrir okkur.“

Lögreglan handtók einn karlmann við Ýmishúsið í morgun.

Ahmed Seddeeq, ímam Menningarsetursins, sagði trúfélagið þurfa meiri fyrirvara en það hefði fengið til að yfirgefa húsnæðið.

„Við þurfum nægan tíma, ekki tvo daga – ekki fjóra daga, til að fara, „sagði Ahmed við fréttamenn. „Við þurfum minnst tvær vikur til að geta tekið hlutina okkar og látið samfélagið vita, við getum ekki fundið annað húsnæði. Við þurfum á því að halda að fólk hlusti á okkur.“

Honum varð þó ekki að ósk sinni. Skömmu eftir að lásasmiðnum var meinaður aðgangur að húsnæðinu kom lögreglan á staðinn. Eftir að hafa rætt við við fulltrúa sýslumanns og lögreglu um nokkra hríð samþykkti Ahmed að hleypa þeim inn í bygginguna þar sem hafist var handa við að skrásetja eignir félagsins. Nú skömmu eftir hádegi var síðan hafist handa við að flytja eignirnar úr húsnæðinu.

Karim Askari, fyrrum formaður Menningarsetursins en núverandi framkvæmdastjóri Stofnunar múslima, segist sorgmæddur yfir aðstæðum en að þetta sé það sem gerist þegar stakur leiðtogi er eltur í blindni. Vísar hann þar til Ahmed og stjórnar Menningarsetursins sem Karim segir hafa gert uppreisn og eitrað hugi félagsmanna gegn sér.

„Þetta er niðurstaðan þegar þú reynir að taka eitthvað sem tilheyrir þér ekki,“ sagði Karim í samtali við mbl.is.

Hann segir að húsnæðið verði áfram notað til trúarlegra athafna.

„Allir eru velkomnir. Múslimar eða ekki múslimar, Íslendingar. Húðlitur eða þjóðerni skiptir ekki máli, bara að það séu manneskjur.“

Luiza kveðst hins vegar ekki hyggjast taka þátt í trúarathöfnum á vegum stofnunarinnar.

„Nei, þetta er óheiðarlegt fólk. Þau eru að svindla. Þau styrkja fordóma og rasisma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert