Þurftu að telja kjark í parið

Frá vettvangi í nótt.
Frá vettvangi í nótt. Ljósmynd/Ólafur Tryggvi Ólafsson

„Það var aldrei vafi á því að við næðum til þeirra en þetta voru lausar skriður og erfitt og leiðinlegt brölt. Það var kannski aðallega það; hætta á grjóthruni sem gerði þetta erfiðara en ella,“ segir Ólafur Tryggvi Ólafsson, undanfari í björgunarsveitinni Súlum á Akureyri, í samtali við mbl.is.

Hann er einn þeirra sem tóku þátt í að bjarga erlendu pari sem lenti í sjálfheldu í Nesskriðum í Siglunesmúla við austanverðan Siglufjörð í nótt. Ólafur Tryggvi er reynslumikill björgunarsveitamaður og hópstjóri í undanfarahóp Súlna. Hann hefur tekið þátt í starfinu frá sautján ára aldri og er fertugur í dag.

Parið hafði samband við Neyðarlínuna á tólfta tímanum í gærkvöldi og óskaði eftir aðstoð. Það hafði komið fótgangandi úr Héðinsfirði og voru á leið til Siglufjarðar þegar það lenti í sjálfheldu á svæði þar sem er bratt fjalllendi niður að sjó.

Voru hærra í fjallinu en talið var

Björgunarsveitafólk sótti að parinu úr þremur áttum. Þá fór einn hópur upp á fjallið og var tilbúinn að aðstoða ef ákveðið yrði að fara með fólkið upp klettana. Ekki er um að ræða hefðbundna gönguleið. Hún er heldur neðar í fjallinu og reyndist fólkið því vera í meiri hæð en talið var í fyrstu.

Hátt í fjörtíu manns tóku þátt í aðgerðinni ásamt lögreglu. Björgunarsveitafólk frá Akureyri, Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði lagðist á eitt til að koma fólkinu niður heilu á húfi og tókst vel til að mati Ólafs Tryggva.

Björgunarfólkið var flutt á bátum að fjallinu en þar var notað flygildi, eða dróni, til að kanna aðstæður og velja uppgönguleið. Ólafur Tryggvi segir að tækið hafi nýst vel þar sem mörg gil og þröngir skorningar eru á leiðinni og því hafi verið ágætt að fá upplýsingar með þessum hætti.

Hér má sjá myndband af björguninni sem tekið var með flygildi:

„Við sóttum að þeim úr þremur áttum og það voru líka komnir menn fyrir ofan þau, upp á fjallið, ef við hefðum valið að taka þau upp klettana. Við töldum á endanum þægilegra að fara niður,“ útskýrir Ólafur Tryggvi. Erfitt var að vita nákvæmlega hver besta og réttasta leiðin upp var og því var hópnum skipt niður. Allir hóparnir komust á endanum til parsins.

Byrjuðu á því að gefa parinu að borða                        

Ólafur Tryggvi var með þeim fyrstu upp en áður höfðu tveir björgunarmenn komist upp til fólksins á skömmum tíma. Þegar undanfarahópurinn var kominn að parinu hófst hann handa við að undirbúa það undir að koma með hópnum niður. „Við gerðum þetta bara þannig að við tryggðum þau í línu nánast alla leiðina niður og studdum þau niður úr þessu,“ segir Ólafur Tryggvi.

Þegar björgunarfólkið komst til parsins var því orðið kalt, enda hafði það verið lengi að. „Við byrjuðum á að gefa þeim að drekka og borða og hressa þau aðeins við áður en við fórum með þau af stað aftur niður. Þegar fólk er komið í þessar aðstæður þá er það pínu skelkað og það þarf aðeins að telja í það kjarkinn til að byrja að fara niður,“ bætir Ólafur Tryggvi við.

Þegar leið á og parið sá að leiðin niður yrði öruggari með línunum sem björgunarfólkið lagði gekk ferðin ágætlega. Aðgerðin tók vissulega nokkurn tíma enda er tímafrekt að koma línum fyrir alla leið niður fjallið.  „Sem betur fer fékk enginn grjót í sig þó að það hafi allt verið á ferðinni þarna í kringum okkur,“ segir Ólafur Tryggvi að lokum.

Frétt mbl.is: Erlent par í sjálfheldu í Nesskriðum

Frá vettvangi í nótt.
Frá vettvangi í nótt. Ljósmynd/Ólafur Tryggvi Ólafsson
Frá vettvangi í nótt.
Frá vettvangi í nótt. Ljósmynd/Ólafur Tryggvi Ólafsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert