Þyrlur nýttar við fjöruhreinsun í Grýtubakkahreppi

Stærsti hluti svæðisins er aðeins aðgengilegur göngufólki yfir hásumarið.
Stærsti hluti svæðisins er aðeins aðgengilegur göngufólki yfir hásumarið. Ljósmynd/ Arctic Heli Skiing

Þyrluskíða-fyrirtækið Arctic Heli Skiing stendur fyrir hreinsunarátaki á fjörum óbyggða Grýtubakkahrepps  á sjómannadaginn, í samvinnu við sveitarfélagið, fjölda fyrirtækja og félagasamtök á svæðinu.

Mikið magn plastúrgangs er í fjörunum, sem aldrei hafa verið markvisst hreinsaðar fyrr. „Það er þekkt staðreynd að plastúrgangur í sjó dregur fjölda lífvera til dauða á ári hverju, þ.m.t. fugla sem flækjast í netadræsum og hvali sem innbyrða stærri plaststykki og deyja hægum dauðdaga,“ segir í tilkynningu frá Arctic Heli Skiing.

Stórsekkir undir rusl og mannskapur verður ferjaður með þyrlum frá Norðurflugi á afskekktari og ill-aðgengilegri staði, s.s. Kjálkanes og Keflavík og Hvalaskoðunarfyrirtækið Arctic Sea Tours á Dalvík sér síðan um að flytja frá Grenivík í Þorgeirsfjörð, meginþorra þeirra sem taka þátt í tiltektinni.

Stærsti hluti svæðisins er aðeins aðgengilegur göngufólki yfir hásumarið, eða af sjó þegar vel viðrar og verður þyrlan því nýtt til að hífa allt ruslið til byggða á Grenivík þar sem starfsmenn Gámaþjónustu Norðurlands sjá um að taka á móti því og flokka.

Nánari upplýsingar um skipulag og skráningu er að finna á www.grenivik.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert