Fann mikið af kúluskít við Mývatn

Kúluskíturinn sem Arnheiður Rán sá við Mývatn.
Kúluskíturinn sem Arnheiður Rán sá við Mývatn. Ljósmynd/Arnheiður Rán Almarsdóttir

Arnheiður Rán Almarsdóttir, líftæknir hjá fyrirtækinu Mýsköpun, fann kúluskít í miklu magni á gangi sínum meðfram Mývatni í gærkvöldi.

„Það var mjög ánægjulegt að sjá hann þarna,“ segir Arnheiður Rán, sem var á gangi ásamt móður sinni.  „Hann var úti um allt.“

Arnheiður, sem býr á Grímsstöðum við Mývatn, hefur stundað rannsóknir á þörungum úr vatninu. 

Því hefur verið haldið fram að kúluskíturinn sé horfinn úr Mývatni en hann er eitt vaxtarform grænþörungs í vatninu og var friðaður fyrir sex árum. Skorað hefur verið á ríkisstjórnina að grípa til aðgerða til að vernda lífríki Mývatns og Laxár sem sé í bráðri hættu vegna næringarefnaauðgunar.

„Síðasta sumar kom hann aðeins upp í fjöru en þessir eru aðeins stærri núna,“ segir Arnheiður um kúluskítinn sem hún fann. „Það hefur verið minna af honum í ytri flóanum undanfarið en það var svo hvasst í gær og fyrradag að hann kom upp að landi.“


Hún bætir við að kúluskíturinn sé á stærð við egg en þegar hann var hvað stærstur fyrir nokkrum árum hafi hann verið 10 til 15 sentimetrar í þvermál.

Aðspurð segist hún ekki gera sér grein fyrir því hvort kúluskíturinn sé á leiðinni að stækka aftur í fyrri stærðir en hann sé alla vega ekki horfinn úr Mývatni.

Ljósmynd/Arnheiður Rán Almarsdóttir
mbl.is