Vilja segja upp samningi ríkis og kirkju

Þingmenn Pírata hafa lagt fram þingsályktunartillögu um slit samkomulags ríkis …
Þingmenn Pírata hafa lagt fram þingsályktunartillögu um slit samkomulags ríkis og kirkju.

Þingmenn Pírata hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að fela ríkisstjórninni að hefja undirbúning að uppsögn samkomulags við þjóðkirkjuna um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar. Samkomulagið var undirritað árið 1997.

Vilja þau fela ríkisstjórninni að meta hvaða lagabreytinga sé þörf og hvaða lagafrumvörp yrði nauðsynlegt að leggja fram á Alþingi. Vilja þau að stefnt verði að því að samkomulagi þessu og öðrum samningum sem að samkomulaginu lúti verði endanlega slitið fyrir árslok 2020.

Í greinargerðinni segir að íslenskt samfélag hafi tekið miklum breytingum á undanförnum áratugum hvað varðar trúarbrögð og trúarvitund fólks. Fari þeim fjölgandi sem eru hlynntir aðskilnaði ríkis og kirkju samkvæmt skoðanakönnunum. Telja þingmennirnir það vera eðlilega kröfu að samningar sem ríkið geri við þjóðkirkjuna eða önnur trú- og lífsskoðunarfélög byggist á nákvæmari útreikningum og rökrænum forsendum en ekki á táknrænum grunni.

Segir í greinargerðinni að eftir slit samkomulagsins yrðu kirkjujarðirnar í ríkiseigu eins og þær hafa verið samkvæmt lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Þjóðkirkjan þurfi hins vegar eftir slit samkomulagsins sjálf að standa straum af launakostnaði presta og annarra starfsmanna.

Sjá tillöguna í heild sinni á vef Alþingis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert