Hrefnuvertíðin byrjar af krafti

Hrefnu landað til vinnslu í Hafnarfirði í vikunni.
Hrefnu landað til vinnslu í Hafnarfirði í vikunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Búið er að veiða 11 hrefnur og segir Gunnar Bergmann Jónsson, framkvæmdastjóri Hrefnuveiðimanna, að vertíðin hafi byrjað af óvenju miklum krafti í ár. Tveir bátar stunda hrefnuveiðar í Faxaflóa og er Hrafnreyður KÓ kominn með sjö dýr og Rokkarinn KE, áður Hafsteinn SK, með fjögur. Dýrin eru unnin í vinnslu Hrefnuveiðimanna í Hafnarfirði.

Hrefnukjöt hefur selst upp á síðustu árum og tvö síðustu ár hafa hrefnuveiðar gengið illa í Faxaflóa. Til að anna eftirspurn hafa Hrefnuveiðimenn flutt inn alls 12-15 tonn af hrefnukjöti frá Noregi.

Gunnar segir að hann hafi miðað við að veiða 50 hrefnur á vertíðinni, en með tilliti til þess hversu snemma kjöt var komið í verslanir í ár og hve grilltíðin hafi verið góð til þessa, sé kannski nær að miðað við 60 dýr til að anna eftirspurn innanlands. Nú um sjómannadagshelgina verða Hrefnuveiðimenn á ferðinni með grillið, meðal annars á Grandagarði.

Gunnar segir að þetta sé tólfta árið sem hann sé viðloðandi hrefnuveiðar og segist ekki muna eftir að vertíðin hafi byrjað eins vel og í ár, samt sem áður hafi oft verið meira af hrefnu í Faxaflóa.

„Á sama tíma í fyrra vorum við búnir að veiða tvö dýr og vorum staddir í miðju dýralæknaverkfalli, sem hafði mikil áhrif á vinnsluna. Þegar verkfallinu lauk 10. júní tókum við 17 dýr á 16 dögum. Þá fylltist Flóinn af æti. Þetta gæti gerst aftur í ár, meira æti og meira líf og þá um leið fleiri hrefnur. Viku af júlí var hins vegar eins og kippt væri úr sambandi, lífið hvarf úr Flóanum og þá hvarf hrefnan. “ segir Gunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert