Mennirnir ekki á vegum Strandferða

Veiðiþjófarnir veiddu allt sem hreyfðist að sögn Rúnars.
Veiðiþjófarnir veiddu allt sem hreyfðist að sögn Rúnars. Ljósmynd/Rúnar Karlsson

Ferðalag full­orðinna karl­manna, sem komu sér fyrir í neyðar­skýli í Horn­vík þar sem þeir stunduðu ólög­leg­ar veiðar, var ekki á vegum fyrirtækisins Strandferða. Fyrirtækið sá aðeins um að flytja þá til Hornvíkur og sækja þá viku síðar líkt og um hafði verið samið. Mistök voru gerð þegar Strandferðir tilkynntu ekki um ferðina í friðlandið. 

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Strandferðum sem gerir út bátinn Salomon Sig. Þar lýsir fyrirtækið yfir megnustu skömm á þeirri aðkomu sem við blasti þegar komið var að sækja mennina. Er aðkoman sögð óafsakanleg og á engan hátt samræmast þeim gildum sem fyrirtækið vilji standa fyrir. 

Frétt mbl.is: Veiðiþjófarnir staðnir að verki

„Meðferð skotvopna er bönnuð í friðlandinu og óheimilt er að nota neyðarskýli Björgunarfélags Ísafjarðar nema í neyð. Umrædd ferð var fyrsta ferðin sem Strandferðir fara á þessu vori með farþega í Hornvík. Um svipað leyti og farþegarnir voru sóttir kom annar bátur fyrirtækisins, einnig á vettvang en sá bátur var í einkaerindum og tengdist ekki þessu verkefni Strandferða. 

Starfsfólk Strandferða harmar það virðingarleysi gagnvart náttúrunni og neyðarbúnaði á staðnum sem framkoma þessara manna endurspeglar og að fyrirtækið hafi að ósekju verið bendlað við þetta athæfi. Okkar mistök fólust hins vegar í því að tilkynna ekki um flutning mannanna í friðlandið en fram til 15. júní ber að tilkynna allar slíkar ferðir til Ísafjarðarbæ.  Gerðar hafa verið ráðstafanir hjá Strandferðum til að slík mistök endurtaki sig ekki,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert