„Kennslustund fyrir almenning og fjölmiðla“

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

Ríkissaksóknari staðfesti í dag að búið væri að fella niður mál gegn tveimur karlmönnum sem sakaðir voru um að hafa nauðgað konu í Hlíðunum í Reykjavík í fyrra. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður mannanna tveggja, segir málið vera kennslustund fyrir fólk að hinkra við áður en það dregur víðtækar ályktanir og segir menn seka áður en sekt þeirra sé sönnuð. Hann segir að mál gegn tveimur fjölmiðlum verði væntanlega þingfest á næstunni, en hann vill þó gefa þeim tækifæri á að semja um skaðabætur fyrir þann tíma.

„Ég held að þetta mál feli í sér ágæta kennslustund fyrir almenning og fjölmiðla að hinkra aðeins við og leyfa þessum málum að vera í þeim farvegi sem þau eru áður en farið er að draga víðtækar ályktanir,“ segir Vilhjálmur, í samtali við mbl.is. Segir hann að það verði einnig áhugavert að sjá hvernig „þeir sem telja sig stýra umræðunni“ bregðist við eftir ákvörðun ríkissaksóknara.

Vilhjálmur rifjar upp að málið hafi upphaflega verið til skoðunar hjá lögmönnum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem hafi ekki talið málið líklegt til sakfellingar. Því næst hafi saksóknarar hjá héraðssaksóknara tekið undir það og ekki talið það líklegt til sakfellingar. Að lokum hafi nú ríkissaksóknari komist að sömu niðurstöðu. Segir Vilhjálmur að mjög vönduð vinnubrögð hafi því verið í kringum málið og niðurstaðan hafi verið afgerandi.

Það veki nú upp spurningar hvort yfirvöld eigi ekki að fá að rannsaka svona mál og taka ákvarðanir „áður en þessir aðilar fara að gapa á netinu og fella dóma yfir saklausum mönnum,“ segir Vilhjálmur. Þá vísar hann einnig til umfjöllunar Fréttablaðsins sem birti fyrstu fréttir af málinu. Segir hann að það hafi verið gert án þess að blaðið hafi verið með neitt í höndunum sem styddi málflutning þess.

Niðurstaða ríkissaksóknara mun að sögn Vilhjálms styrkja málsókn umbjóðenda hans, en  hann segir fjölmiðlana Fréttablaðið og Hringbraut nú hafa nokkra daga til að semja um skaðabætur áður en málin verði þingfest í héraðsdómi.

Hlíðarnar í Reykjavík.
Hlíðarnar í Reykjavík. mbl.is/Júlíus

Segir Vilhjálmur að karlmennirnir tveir séu hinir raunverulegu brotaþolar í málinu. Þannig hafi verið vegið harkalega að æru þeirra, þeir sagðir sekir uns sekt þeirra var sönnuð sem sé gegn grundvallaratriðum réttarríkisins og svo hafi þeir verið sakaðir um háttsemi sem hafi vakið upp mjög sterk viðbrögð í samfélaginu. Með þessu hafi friðhelgi einkalífs þeirra verið brotin, en á netinu fóru fljótlega að birtast myndir af mönnunum og fjölskyldu þeirra.

Vilhjálmur segir að enn eigi eftir að setja fram upphæð á skaðabótakröfurnar, en að þeim verði líklega skipt í ófjárhagslegt tjón og fjárhagslegt tjón. „Það er ljóst að tjónið er mikið,“ segir hann og bætir við að horft sé til þess að skaðabótakröfurnar skipti milljónum, jafnvel tugum milljóna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert