Veiðiþjófar staðnir að verki í Hornvík

Veiðiþjófarnir veiddu allt sem hreyfðist að sögn Rúnars.
Veiðiþjófarnir veiddu allt sem hreyfðist að sögn Rúnars. Ljósmynd/Rúnar Karlsson

Fimm fullorðnir karlmenn höfðu komið sér fyrir í neyðarskýli í Hornvík þar sem þeir stunduðu ólöglegar veiðar á öllu sem hreyfðist. Þegar mennirnir voru staðnir að verki sl. laugardag höfðu þeir dvalið á svæðinu í rúma viku. Ferðaþjónustuaðili, á leið sinni í að slá upp tjaldbúðum fyrir komandi sumarvertíð, kom upp um veiðiþjófana.

Aðkoman var slæm. Í fjörunni lá selshræ sem vaktað var með hreyfimyndavél sem sendi frá sér merki inn í neyðarskýli til mannanna sem búnir voru byssum, háfum, netum og veiðistöngum, tilbúnir að skjóta refi sem gæddu sér á hræinu. Refir á svæðinu eru sagðir svo gæfir að þeir „borði úr lófanum á þér“.

Einn veiðiþjófanna er í ferðaþjónustu á Vestfjörðum

Rúnar Karlsson, einn eigenda ferðaþjónustufyrirtækisins Borea Travel, stóð veiðiþjófana að verki. Hann segist hafa kannast við bátana sem lágu í víkinni. „Svo sjáum við þá fara fram og til baka á Zodiac, þá voru þeir að hífa netin úr sjónum,“ segir Rúnar um aðkomuna. Hann segir mennina hafa orðið eilítið flóttalega þegar þeir voru staðnir að verki.

„Við fengum leyfi frá björgunarsveitinni fyrir því að geyma eldhúsdót í skýlinu í vetur. Þegar við komum höfðu þeir opnað alla kassana, tínt upp potta, hnífapör og diska og búnir að gera sér að góðu. Þetta lá úti um allt, í einum potti var soðið selkjöt og svo höfðu þeir hent plastskálum á bálið,“ segir Rúnar en mennirnir grilluðu á grónu landi.

Aðkoman í neyðarskýlinu var ekki góð. Mennirnir höfðu dvalið þar …
Aðkoman í neyðarskýlinu var ekki góð. Mennirnir höfðu dvalið þar í viku þegar þeir voru staðnir að verki. Ljósmynd/Rúnar Karlsson

 Auk plastskála höfðu mennirnir hent kaffibollum hingað og þangað, eins og þeir væru einnota, og gaskút á bálið, sem hafði sprungið áður en Rúnar kom að svæðinu. 

Að sögn Rúnars eru í hópnum fyrrverandi heimamenn sem þekktir séu fyrir ýmislegt misjafnt. Þá sé einnig aðili sem stundi ferðaþjónustu á sumrin, m.a. við að ferja ferðamenn í Hornvík. Segist Rúnar hafa heimildir fyrir því að Markaðsstofa Vestfjarða og bókunarskrifstofur ætli að taka viðkomandi út úr öllu sínu kynningarefni og hætta að selja ferðir hjá viðkomandi.

„Menn ætla að bregðast við. Maður hefur heyrt sögur af svona rugludöllum sem fara inn í friðlandið, en þetta er eitt af fáum áþreifanlegum dæmum,“ segir Rúnar en hann er á leið til lögreglu síðar í dag til þess að gefa skýrslu vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert