Grunaður um kynferðisafbrot í áraraðir

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð héraðsdóms þar sem karlmaður var dæmdur í gæsluvarðhald fyrir að hafa brotið nálgunarbann og brottvísun af heimili stjúpdætra sinna og móður þeirra, sem er jafnframt eiginkona mannsins. Féll dómur um það í mars á þessu ári. Er maðurinn grunaður um að hafa í áraraðir brotið gegn mæðgunum með ítrekuðum kynferðisbrotum, líkamlegu ofbeldi og hótunum.

Fram kemur í dómi héraðsdóms um gæsluvarðhaldið að rannsókn meintra brota mannsins sé nýlokið og að málið verði sent til héraðssaksóknara eins fljótt og unnt sé.

Í apríl var manninum gert að sæta áframhaldandi nálgunarbanni og brottvísun af heimili í kjölfar þess að mæðgurnar höfðu ítrekað tilkynnt brot mannsins gegn nálgunarbanninu og lagt fram kæru á hendur honum vegna brotanna. Var ákvörðunin staðfest í bæði héraðsdómi og Hæstarétti.

Í maí var manninum gert að sæta áframhaldandi nálgunarbanni og brottvísunar af heimili í kjölfar ítrekaðra brota hans gegn nálgunarbanninu. Var það líka staðfest í dómstólum.

Þann 1. júní hafði ein stjúpdóttir mannsins samband við lögreglu í miklu uppnámi og sagðist hrædd um líf sitt. Var hún þá nýkomin til vinnu og var maðurinn þá að senda henni líflátshótanir í smáskilaboðum en í gegnum „enn eitt símanúmerið“.

Sagði stjúpdóttirin að maðurinn hefði byrjað að senda henni skilaboð strax eftir að hann hefði verið látinn laus úr haldi lögreglunnar. Stuttu eftir tilkynningu stjúpdótturinnar hringdi hin stjúpdóttirin í lögreglu og tilkynnti að maðurinn væri einnig að senda sér hótanir.

Meðal hótana sem stjúpdóttirin fékk voru eftirfarandi skilaboð:

„Nú verdur  tú drepin B[innsk. Blaðamanns: nafn stjúpdótturinnar] bid við vinnu tína tú ert ad boga rangara manneskjur“

„Nú eru dagar ykkar taldir nu fai thid ad kenna a thvi nu eru thid daudar B og“

Símanúmerið sem maðurinn sendi skilaboðin úr var skráð á 86 ára gamla konu, en þegar lögreglan handtók manninn fannst símkortið á honum. Hefur hann viðurkennt í yfirheyrslu hjá lögreglu að vera eigandi og notandi númersins.

Í dómi héraðsdóms eru rakin fjölmörg dæmi þar sem lögreglan telur að maðurinn hafi brotið gegn nálgunarbanninu og vakið hjá mæðgunum ótta um líf, heilbrigði og velferð sína. Þá hafi hann móðgað þær og smánað með stórfelldum ærumeiðingum.

Meðal skilaboða sem maðurinn sendi annarri stjúpdótturinni voru þrjú skilaboð á þriggja daga tímabili í maí þar sem hann hótaði að drepa hana. Eitt þeirra hljóðaði svohljóðandi: „I will cill you and you gonna dei.“

Þá eru hótanir um að nauðga bæði konunni og stjúpdætrunum. Hótar hann einnig að „menn“ muni koma og nauðga mæðgunum og ýmiss konar hrottalegu ofbeldi, svo sem að skera þær og láta þeim blæða út.

Nema símhringingar og skilaboðssendingar mannsins hundruðum á nokkurra mánaða tímabili, en hann hringdi meðal annars 566 sinnum úr farsíma sínum í móðurina á 14 daga tímabili.

„Að mati lögreglu séu yfirgnæfandi líkur á því að kærði muni halda áfram afbrotum gangi hann frjáls ferða sinna og sé talið nauðsynlegt að verja þær B og A gegn árásum hans í ljósi ítrekaðra hótana í þeirra garð um líflát og líkamsmeiðingar. Það sé því talið nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi meðan málum hans sé ólokið. Hann hafi sýnt einbeittan brotavilja og ekki látið af háttsemi sinni þrátt fyrir ítrekuð afskipti lögreglu og fyrirmæli þar um. Telji lögregla ljóst að kærði muni ekki fá skilorðsbundinn dóm vegna fjölda mála sem um ræðir og alvarleika þeirra,“ segir í dómnum um mat lögreglunnar á aðstæðum.

Fellst dómurinn á að með hliðsjón af margítrekuðum og alvarlegum brotum og einbeittum brotavilja mannsins, sem ekki hafi látið af háttsemi sinni þrátt fyrir ítrekuð afskipti lögreglu og fyrirmæli þar um, skuli hann úrskurðaður í gæsluvarðhald til 30 júní.

Dóm­ur Hæsta­rétt­ar og héraðsdóms í heild sinni.

mbl.is