Reykjanesbær: Enn von um samninga

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.

Stjórn Reykjaneshafnar hefur óskað eftir greiðslufresti og kyrrstöðutímabili við kröfuhafa Reykjaneshafnar meðan á viðræðum Reykjanesbæjar við aðila stendur yfir. Enn er von að samningar náist milli bæjarins og kröfuhafa og slíkir samningar myndu létta á greiðslubyrði sveitarfélagsins og gera því kleift að leggja fram raunhæfa aðlögunaráætlun. Þetta kemur fram í tilkynningu Reykjanesbæjar til Kauphallarinnar í kvöld.

Frétt mbl.is: Samningar við kröfuhafa náðust ekki

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir í samtali við mbl.is að bærinn sé að biðja innanríkisráðuneytið um lengri frest til samningaviðræðna við kröfuhafa. Á morgun verði innanríkisráðuneytinu afhend bókun bæjarstjórnar um málið og svo verði að sjá til hvort eftirlitsnefndin gefi lengri frest.

Í byrjun maí sendi Reykjanesbær eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga tilkynningu um að ekki hefði tekist að semja við kröfuhafa. Þann 18. maí sendi eftirlitsnefndin bænum svarbréf þar sem kom fram að nefndin teldi að greiðslubyrði samstæðu Reykjanesbæjar umfram greiðslugetu væri svo mikil að ljóst væri að ekki mundi úr rætast í bráð. Því verði ekki hjá því komist að leggja til við innanríkisráðherra að Reykjanesbæ verði skipuð fjárhaldsstjórn.

Áður en endanleg ákvörðun um slíkt væri tekin var bæjarstjórn þó gefið tækifæri á að koma á framfæri athugasemdum sínum eða frekari upplýsingum. Í ljósi þess sendi bæjarstjórn frá sér tilkynningu í kvöld og vill þar upplýsa eftirlitsnefndina um eftirfarandi:

„Frá því að framangreind tilkynning var send eftirlitsnefndinni þ. 4. maí sl. hefur viðræðum við kröfuhafa verið fram haldið og því enn von til þess að frjálsir samningar um breytingar á skuldum Reykjanesbæjar náist. Slíkir samningar myndu um leið létta á greiðslubyrði þess og gera því kleift að leggja fram raunhæfa aðlögunaráætlun eins og lög gera ráð fyrir. Því óskar bæjarstjórn eftir lengri fresti sem nýttur yrði til þess að ná ásættanlegri niðurstöðu.“

Til viðbótar við þetta óskar stjórn Reykjaneshafnar eftir greiðslufresti og kyrrstöðutímabili við kröfuhafa Reykjaneshafnar meðan á viðræðum aðila stendur.

Frá Reykjanesbæ. Mynd úr safni.
Frá Reykjanesbæ. Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert