Sundstaðir verði opnir lengur

Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lagði til umræðu um það að opnunartími sundstaða yrði lengdur á ný, á borgarstjórnarfundi í dag. Sagði hún að málið væri einfalt í framkvæmt, og hvatti til þess að það yrði tekið til skoðunar.

„Ég er að að leggja til að Reykjavík greini aftur meinta nauðsyn þess að sundstaðir hverfanna loki fyrr, með tilliti til þess að bæði er verið að hækka gjaldtökuna og fjölgun ferðamanna er slík að ástæða er til að bregðast við, til að borgarbúar búi við sama þjónustustig að þessu leyti og sjálfsagt er,“ sagði Hildur.

Verið var að ræða tillögur stýrihóps um lýðheilsu og heilsueflingu barna og unglinga í leik-, grunn- og frístundastarfi, þegar Marta Guðjónsdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, benti á að opnunartímar sundlauga hefðu verið skertir, sem gæti ekki verið til þess að ýta undir útivist og hreyfingu eins og lagt er til í skýrslunni.

Hildur tók undir og sagði að borgarstjórn ætti á hverjum tíma að vera meðvituð um það sem Reykjavík gæti gert til að stuðla að aukinni lýðheilsu. Opnunartími sundstaða hefði verið styttur fyrir nokkrum árum með þeim rökum að sú hagræðing hefði verið nauðsynleg.

„Hvað svo sem má segja um nauðsyn þess á sínum tíma er allavega hægt að segja að opnunartímunum hafi verið dreift þannig að Reykvíkingar ættu á hverjum tíma að geta farið í einhverja laug sem væri opin, sem var þá Laugardalslaugin sem er alltaf opin til klukkan 10,“ sagði hún en bætti við að nú væri svo komið að kvartanir bærust frá íbúum í öllum hverfum borgarinnar yfir því að geta ekki lengur farið í sund um kvöld og helgar þar sem Laugardalslaugin væri „einfaldlega pökkuð af fólki, og þá aðallega ferðamönnum“.

„Þessi valkostur sem hefur staðið Reykvíkingum til boða alla tíð um að nota frábæru sundstaðina okkar sem aðgengilegan heilsueflandi valkost er ekki sá góði valkostur lengur og hefur verið. Varðandi þessa umræðu er gott og blessað að gera alls konar skýrslur til að nota sem vegvísa en Reykjavík á líka að líta sér nær og drífa í ákvörðunum þar sem eru hæg heimatök og aðgengilegt er að kippa í liðinn,“ sagði Hildur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert