Fastar í vítahringnum árum saman

Viðvarandi áreitni getur verið sannkallaður vítahringur fyrir brotaþolann og varar …
Viðvarandi áreitni getur verið sannkallaður vítahringur fyrir brotaþolann og varar jafnvel árum saman mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Því miður þekkjum við í Kvennaathvarfinu mörg svona dæmi í gegnum árin,“ segir Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Samtaka um Kvennaathvarf, um karlmann sem Hæstirétt­ur staðfesti í gær úr­sk­urð yfir um gæslu­v­arðhald fyr­ir að hafa ítrekað brotið nálg­un­ar­bann og brott­vís­un af heim­ili stjúp­dætra sinna og móður þeirra, sem er jafn­framt eig­in­kona manns­ins.

Dóm­ur um nálgunarbannið féll í mars á þessu ári, en maður­inn er grunaður um að hafa í áraraðir brotið gegn mæðgun­um með ít­rekuðum kyn­ferðis­brot­um, lík­am­legu of­beldi og hót­un­um.

„Við þekkjum dæmi um konur sem nýta allar leiðir sem eru í boði, en það hjálpar þeim ekki sérlega mikið og þær lifa í þessum vítahring svo árum skiptir,“ segir Sigþrúður. Sökin sé oft eignuð konunum með einhverjum hætti, m.a. að þær hafi haft samband við manninn, séu ekki að kæra eða fari aftur heim og njóti þar af leiðandi ekki verndar.

„En svo sjáum við líka dæmi um konur sem gera allt sem hægt er að gera en fá samt ekki vernd. Við sjáum líka dæmi um menn sem brjóta ítrekað gegn nálgunarbanni, eða sem eru komnir af stað um leið og nálgunarbannið rennur úr gildi því það líður alltaf einhver tími áður en næsta bann er sett á.“

Geta brotið af sér aftur og aftur

„Þetta er einhver brotalöm á því hvernig kerfið virkar, því það nær ekki að vernda þessar konur,“ segir Sigþrúður og nefnir sem dæmi að maður á skilorði, eða í nálgunarbanni, geti brotið af sér aftur og aftur án þess að gripið sé til aðgerða.

Persónufrelsi einstaklingsins sé of mikils metið er kemur að þessum málaflokki. „Frelsi fólks til að hafa samband við einhvern sem vill ekki hafa samband við það virðist vera afskaplega mikils metið,“ segir Sigþrúður.

„Þess vegna er t.d. erfitt að fá nálgunarbann jafnvel þótt einhver hafi beitt konu grófu líkamlegu ofbeldi. Hafi viðkomandi hins vegar ekki gert það í einhvern tíma, eða ef hótanirnar eru ekki skriflega mjög nákvæmar, er það oft metið svo að ekki séu nógu miklar líkur á að viðkomandi efni hótanirnar til að beita hann þessum þvingunarúrræðum.“

Litlir hagsmunir oft metnir veigameiri

Sjálf sé hún þeirrar skoðunar að þeir  hagsmunir - að hafa samband við einhvern sem vill ekkert með viðkomandi hafa - séu afskaplega veikir á móti hagsmunum brotaþola sem þráir að geta sér frjálst um höfuð strokið.

„Þetta snýst um að maður sem þú hefur verið í nánu sambandi við hefur beitt þig ofbeldi. Það sem á eftir kemur þarf ekkert að vera sérlega ógnandi til að vera samt sem áður ógnandi í garð brotaþola. Bara það að vita af honum í nágrenninu er ógn og mér finnst oft ekki tekið tillit til þess í úrskurðum um nálgunarbann.“

Sigþrúður segir Samtök um Kvennaathvarf hafa orðið vör við áherslubreytingu í starfi lögreglu í þessum málaflokki og segir þær breytingar skila góðum hlutum. „Ég held þó að það sé enn of erfitt að fá nálgunarbann, en ég veit líka að lögregla setur oft á nálgunarbann sem dómarar fella síðan úr gildi.“ Viðhorf dómstóla virðist vera að verulega miklar líkur þurfi að vera á að viðkomandi muni fremja sama brot aftur til að nálgunarbann fáist samþykkt.

„Við vitum líka að það er ekki brugðist nógu hratt eða kerfisbundið við þegar brotið er gegn nálgunarbanni og það vantar eitthvað upp á þar.“

Lýkur stundum fyrst þegar brotaþoli flyst úr landi

Blaðamanni liggur forvitni á að vita hvort áreitninni ljúki einhvern tímann í málum sem þessum og segir Sigþrúður það vissulega gerast. „Í einhverjum tilfellum lýkur áreitninni af því að viðkomandi einstaklingur lætur af hegðun sinni og fær jafnvel hjálp til að takast á við það sem er að hrjá hann.

Því miður gerist lýkur áreitninni líka stundum þegar viðkomandi eignast nýja konu og þá veltir maður fyrir sér hvort brotunum sé að ljúka eða hvort þetta sé bara millifærsla á brotaþolum. Stundum lýkur henni líka með því að annar aðilinn deyr eða þá að brotaþoli flytur úr landi.“

Hún segir þær í Kvennaathvarfinu vissulega þekkja dæmi þess að konur hafi ekki séð sér annan kost færan en að flýja land.

Margar konur hafa dvalið í Kvennaathvarfinu vegna viðvarandi áreitni og segir Sigþrúður þangað jafnvel koma konur sem hafi slitið sambandi við ofbeldismanninn mörgum árum áður og sem hafi komið undir sig fótunum á nýjum stað.

„En þá koma tímabil í hans ofbeldishegðun þar sem þær eru ekki öruggar heima hjá sér. Það eru ekki síst þessar konur sem eru duglegar að halda sambandi við okkur eftir að þær fara  og þær koma gjarnan í ráðgjöf og stuðning og þá reynum við að stappa í þær stálinu og benda þeim hvert þær geta leitað.“

Grunaður um kynferðisbrot í áraraðir

Á milli 3-400 konur nýta sér viðtalsþjónustu Kvennaathvarfsins árlega.

www.kvennaathvarf.is

Neyðarsími 561 1205

„Við vitum líka að það er ekki brugðist nógu hratt …
„Við vitum líka að það er ekki brugðist nógu hratt eða kerfisbundið við þegar brotið er gegn nálgunarbanni og það vantar eitthvað upp á þar,“ segir Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins. Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert