Fái að snúa aftur til starfa

Kristján B. Thorlacius, lögmaður lögreglufulltrúans, segir embætti lögreglustjórans ekki hafa …
Kristján B. Thorlacius, lögmaður lögreglufulltrúans, segir embætti lögreglustjórans ekki hafa gætt meðahófs. Þórður Arnar Þórðarson

Búið er að kæra til innanríkisráðuneytsins þá ákvörðun Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, að víkja lögreglufulltrúa í fíkniefnadeild lögreglunnar frá störfum. Þá er búið að senda embætti lögreglustjóra bréf þess efnis að lögreglumaðurinn fái að snúa aftur til starfa, en héraðssaksóknari felldi í gær niður mál lögreglufulltrúans, sem verið hefur til rannsóknar hjá embættinu í nærri hálft ár.

Kristján B. Thorlacius, lögmaður lögreglufulltrúans, staðfestir að kæran hafi verið send innanríkisráðuneytinu og að ráðuneytið hafi látið vita að ákvörðunar sé að vænta fyrir næstu mánaðamót.

„Það sem venjulega gerist í svona málum er að þau fara fyrir sérstaka nefnd sem á að meta hvort það hafi verið forsendur til að leysa viðkomandi frá störfum. Það er þó einnig hægt að kæra ákvörðunina til innanríkisráðuneytisins og það var það sem við ákváðum að  gera,“ segir Kristján. Sú ákvörðun hafi verið tekin, því það sé mat sitt og skjólstæðings síns að ekki sé samræmi á því hvernig brugðist hefur verið við í þessu máli og öðrum.

Gættu ekki meðalhófs

„Grundvöllurinn fyrir því sem við settum í kærunni til innanríkisráðuneytisins var að lögreglustjóraembættið gætti ekki að reglunum um meðalhóf og jafnræði þegar það tók þessa ákvörðun.“

Kristján nefnir LÖKE-málið, þ.e. mál Gunnars Scheving Thorsteinssonar, sem dæmi. „Þar var Gunnar t.d. ekki leystur frá störfum fyrr en það var búið að gefa út ákæru. Hann var sendur heim á launum, en það var ekki notuð sama aðferð í máli míns umbjóðanda. Hann var leystur frá störfum á hálfum grunnlaunum 14. janúar sl. og síðan er málið búið að taka næstum fimm mánuði,“ segir Kristján og bætir við að flestir geti væntanlega ímyndað sér að slíkar tekjur dugi skammt.

Þegar var búið að færa lögreglumanninn til í starfi, en það var gert sl. vor vegna ásakana um hvernig samskiptum hans við brotamenn væri háttað og hefði það átt að duga þar til niðurstaða lægi fyrir í málinu.

Byggja á slúðri og gróusögum

Kol­brún Bene­dikts­dótt­ir vara­héraðssak­sókn­ari sagði í samtali við mbl.is í gær að ekk­ert bendi til sekt­ar manns­ins. „Það var ekk­ert sem benti til refsi­verðs brots,“ sagði hún og bætt­i við að mjög djúpt hafi verið farið í málið og rann­sókn­in verið viðamik­il.

Kristján segir skjólstæðing sinn fagna þessari niðurstöðu. „Hún er algjörlega í samræmi við það  sem við höfðum trú á að hún yrði. Það er ekkert í þessu máli og þegar maður fer yfir gögnin þá má segja að þar sé bara verið að byggja á slúðri og gróusögum.“

Hann hafi nú í morgun sent bréf á lögreglustjóra þar sem er gerð krafa um að umbjóðandi sinn verði boðaður til starfa á ný „og að hann fái greidd þessi laun sem hann á óuppgerð og að embættið muni gefa út yfirlýsingu um að hann sé kominn aftur til starfa.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert