Sigurður G. tínir og rannsakar rusl í Reykjavík

Félagarnir Sigurður G. Guðjónsson og Atlas byrja hvern morgun á …
Félagarnir Sigurður G. Guðjónsson og Atlas byrja hvern morgun á göngutúr og tína rusl saman. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Þetta byrjaði á því að ég eignaðist hund og hundurinn þurfti hreyfingu. Síðan fór ég að tína saman ruslið á leiðinni og datt í hug að það væri kannski fróðlegt að vekja athygli á sóðaskapnum í borginni,“ segir Sigurður G. Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður og annar eigandi Facebook-síðunnar Rusl í Reykjavík ásamt Atlasi hundinum sínum.

„Þegar þú ferð út að labba með hundinn á hverjum morgni og ferð að virða fyrir þér umhverfið þá sérð þú að þar er allt í rusli,“ segir Sigurður. Þeir Sigurður og Atlas byrja hvern morgun eldsnemma á göngutúr um hverfið sitt í Árbænum. „Við löbbum alltaf svipaðan hring í Elliðaárdalnum. En það sem er merkilegt að sjá er að þó að við löbbum um svipaðar slóðir nærri því 365 daga á ári þá er eins og uppspretta ruslsins sé óendaleg.“

Ruslið á að fara í ruslatunnurnar en ekki á götuna.
Ruslið á að fara í ruslatunnurnar en ekki á götuna. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Rannsakar fánu eða flóru ruslsins 

Sigurður rannsakar fánu eða flóru ruslsins, það er hvað það er sem fólk er að henda á víðavangi. Í ljós hefur komið að fólk er að henda gosdrykkjaumbúðum, sælgætisumbúðum, umbúðum utan um ís, sígarettupökkum, sígarettustubbum, hassi og hassumbúðum svo fáeitt sé nefnt.

Í lok maí tók Sigurður saman allt það rusl sem hann hafði hirt í mánuðinum en hann tekur aðeins upp það rusl sem verður á vegi hans en leitar það ekki upp sjálfur. Ruslið geymdi hann síðan í tunnu sem hann er með frá Gámaþjónustunni sem þó er ætluð garðúrgangi. Hann játar að ruslið hafi ekki verið neitt sérlega vel lyktandi eftir mánuðinn en tók það þó saman og flokkaði.

Sigurður segir merkilegt að sjá hvernig ruslið taki breytingum. „Maður getur eiginlega alltaf séð hvað er um að vera á ruslinu. Þegar það er góðviðri er meira af ísumbúðum og svo sér maður gelumbúðirnar eftir hlauparana. Ef ég væri vísindamaður og hefði áhuga á því væri gaman að skoða ruslið því það getur sagt heilmikla sögu alveg eins og fornleifar um mannvistir.“

Hann segir ruslið í raun segja mannvistarsögu nútímans. „Maður sér hvaða gosdrykkir og sælgæti eru vinsælast á hverjum tíma. Nú er til dæmis kók meira áberandi en Pepsi út af þessum EM-leik sem er í gangi. Þetta sér maður allt í ruslinu.“

Facebook-síðan Rusl í Reykjavík var stofnuð 4. september 2013 en …
Facebook-síðan Rusl í Reykjavík var stofnuð 4. september 2013 en hún er hugsuð sem liður í baráttu fyrir bættri umgengni. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hver á ruslið?

Sigurður fékk áhuga á rusli og þeirri spurningu hver eigi ruslið fyrir hrun er hann starfaði fyrir Gámaþjónustuna. Gámaþjónustan var að bjóða fólki tunnu til þess að flokka rusl og gerði Reykjavíkurborg athugasemd við það. „Ég átti í rosalega skemmtilegum umræðum við lögfræðing Reykjavíkurborgar en hann taldi að það væri verið að fara inn á starfsvið borgarinnar með því að útvega þessar tunnur þar sem borgin ætti ruslið.“ Sigurður segir þó borgina aðeins hafa sorphirðuskyldu en ef fólk vilji flokka sitt rusl og láta einhvern annað síðan hafa það eigi fólk að sjálfsögðu sitt rusl.

Facebook-síðan Rusl í Reykjavík var stofnuð 4. september 2013 en hún er hugsuð sem liður í baráttu fyrir bættri umgengni. Nú fylgjast um 6.400 manns með ævintýrum þeirra Sigurðar og Atlasar á morgnana.

„Þetta er líka það að almennur sóðaskapur fer voðalega mikið í taugarnar á mér,“ segir Sigurður og bendir á það að sum sveitarfélög í Bretlandi leggi þungar sektir við því að verið sé að henda rusli á víðavangi. „Það eru  borgir í Englandi þar sem það er allt að 70 punda sekt fyrir að henda sígarettustubbi á almannafæri.“ Aðspurður um hvort hann telji að taka eigi upp slíka refsistefnu í höfuðborginni segir Sigurður að hann hafi aldrei verið neitt rosalega refsiglaður en mikið vanti upp á áróður fyrir bættir umgengni.

Nú fylgjast um 6.400 manns með ævintýrum þeirra Sigurðar og …
Nú fylgjast um 6.400 manns með ævintýrum þeirra Sigurðar og Atlasar á morgnana. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Sóðaskapurinn hefur sótt til verri vegar

„Það eru til dæmis mjög fáar ruslatunnur í Elliðaárdalnum og slagorð eins og „Hrein torg, fögur borg“ og „Láttu ekki þitt eftir liggja“ þekkjast ekki lengur. Það er í rauninni enginn svona áróður lengur sem er stanslaust í gangi.“

Sigurður telur sóðaskapinn hafa sótt til verri vegar en það helgist eflaust af því að meira er til af sælgæti, fólk er meira á ferðinni og svo borði fólk mun meira af skyndibita nú en áður. „Fólk er að kaupa sér hamborgara eða kjúklingabita og hendir síðan umbúðunum á götuna, það er eitthvað að.“

Að lokum spyr blaðamaður Sigurð hvernig Atlasi finnist þessir ruslagöngutúrar þeirra félaga. „Honum finnst þetta fínt. Hann er ánægður með göngutúrinn en ég held að hann skilji nú ekki hitt sem við erum að gera.“

Facebook-síða Rusl í Reykjavík 

Sigurður segir Atlas ánægðan með göngutúrinn þótt hann skilji eflaust …
Sigurður segir Atlas ánægðan með göngutúrinn þótt hann skilji eflaust ekki ruslatínsluna. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert