Að strekkja striga er handverk sem fáir kunna

Davíð Einarsson, Einar Beinteinsson, Beinteinn Ásgeirsson og Ásgeir Beinteinsson.
Davíð Einarsson, Einar Beinteinsson, Beinteinn Ásgeirsson og Ásgeir Beinteinsson. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Það má eiginlega segja að ég hafi verið kallaður út til þessa að stjórna þessu verki,“ segir hinn áttatíu og þriggja ára gamli Beinteinn Ásgeirsson. Beinteinn hefur starfað í um sjötíu ár sem veggfóðrari og dúkalagningameistari en var kallaður út á Fríkirkjuveg 11 til að strekkja striga á veggi hússins.

Að strekkja striga er gamalt handverk og sértækni sem afar fáir kunna hér á á landi. mbl.is fékk að fylgjast með framkvæmdinni á Fríkirkjuvegi 11 og náði tali af þeim feðgum Beinteini, Ásgeiri og Einari. Beinteinn á sjö börn og hafa nokkur þeirra lært fagið. Ásamt þeim feðgum var Davíð Einarsson einnig á svæðinu en hann er sonur Einars og fjórði ættliður í beinan karllegg sem lærir þessa tækni. Frá byrjun tuttugustu aldar hafa fimmtán manns í fjölskyldunni lifað af handverkinu.

Þetta er mikil nákvæmnisvinna.
Þetta er mikil nákvæmnisvinna. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Lærði handverkið 14 ára gamall 

„Þetta handverk er afar gamalt og náði vinsældum fyrir aldamótin árið 1900,“ segir Beinteinn. Hann lærði sjálfur listina þegar hann var fjórtán ára gamall af föður sínum Ásgeiri Val Einarssyni. Fríkirkjuvegur 11 er eitt af fyrstu húsunum sem strigalagt var en það var reist á árunum 1907–1908.

„Nú erum við að fara að gera þetta við mjög stórt loft, við höfum í rauninni aldrei gert þetta við svona stórt loft,“ segir Beinteinn. Striginn er strengdur yfir gifsplötur í lofti hússins. Hann er settur upp í einu horninu og síðan strekktur út í hin hornin og festur niður allan hringinn.

Striginn sem notaður er í verkið er sá sami og notaður er til að pakka inn fiskafurðum. Hann er síðan saumaður saman eftir endilöngu í saumavél. Þegar búið er að strengja strigann á vegginn er maskínupappír bleyttur með hveitilími. Pappírinn er síðan látinn jafna sig þangað til hann er orðinn gegnblautur. Þá stilla feðgarnir sér upp, stilla pappalengjunni rétt á loftið og líma hana á.

Beinteinn stjórnar verkinu.
Beinteinn stjórnar verkinu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Laga göt með lauk 

„Við ætlum að vera þrír hérna að setja upp pappírinn og athuga hvort þetta takist. Þetta verður að takast, það er ekki um neitt annað að ræða. Þetta gerist bara einu sinni og ef það mistekst verðum við að byrja upp á nýtt. Við erum með nóg af öllu og það má ekkert klikka,“ segir Beinteinn.  

Striginn flýtur svo í rauninni ofan á timbrinu, einungis festur á milli horna og við loft og niður við gólf. Einfalt er að laga göt á veggnum en það er list sem Ásgeir lærði af afa sínum. „Ef það kemur gat á þetta, hvort sem það er á lofti eða vegg, þá nærðu þér í lauk og skerð hann eftir vextinum. Síðan strýkur þú í kringum gatið með lauknum og límir pappír yfir gatið en passar að hann hangi út í loftið á endanum. Síðan þegar pappírinn er orðinn alveg þurr þá togar þú í endana og rífur hann frá. Þá er engin missmíð lengur á veggnum,“ segir Ásgeir.

Beinteinn blandar límið tli að festa pappírinn.
Beinteinn blandar límið tli að festa pappírinn. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Endist heila mannsævi 

Ásgeir segir fólk oft ekki átta sig á því hvað auðvelt sé að laga gamla strigaveggi. Oft sé hægt að nýta gamla strigann og skipta einungis um pappír. Striginn er ódýrt efni og ef vel er að verki staðið endist verkið heila mannsævi.

Þeir feðgar eru ánægðir með að strigaverkið fái að halda sér á Fríkirkjuvegi 11. „Það er gaman að það sé verið að gera þetta hús svona vandlega upp og viðhalda gamla handverkinu,“ segir Ásgeir að lokum. 

Frá ofanverðri nítjándu öld hafa fimmtán manns í fjölskyldunni lifað …
Frá ofanverðri nítjándu öld hafa fimmtán manns í fjölskyldunni lifað af handverkinu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert