Stóð skyndilega í miðjum reyknum

Birkir Björnsson segir að um mjög óhugnanlegar aðstæður hafi verið …
Birkir Björnsson segir að um mjög óhugnanlegar aðstæður hafi verið að ræða.

„Þetta voru mjög óhugnanlegar aðstæður sem við vorum í,“ segir Birkir Björnsson, leikmaður Leiknis í knattspyrnu, um óeirðaástand sem ríkt hefur í Marseille í Frakklandi í kringum leik Englands og Rússlands sem fram fór í gær. Birkir er á svæðinu ásamt félögum sínum, en þeir voru staddir í miðbæ borgarinnar þegar átök á milli stuðningsmanna landsliðanna og lögreglu brutust út.

Átökin hafa staðið yfir síðan á fimmtudag, og fjölmargir hafa verið handteknir. Þá er einn stuðningsmaður enska landsliðsins í lífshættu. Lögregla hefur þurft að beita kylfum og táragasi og urðu Birkir og félagar hans vitni að því í gærkvöldi.

Mistök að láta fólk safnast saman úti á torgi

Birkir lýsir því að hópurinn hafi ákveðið að fara ekki í miðbæinn yfir daginn í gær, þar sem þeir hafi séð fréttir af því að stuðningsmenn væru að slást. Þeir hafi þó ákveðið að fara um kvöldið þegar leikurinn var sýndur, til að geta horft á hann á bar.

„Til að byrja með var allt með kyrrum kjörum fyrir utan smá læti. En svo eftir leikinn þá var nánast öllum börum lokað og fólk byrjaði að safnast saman úti á torgi,“ segir Birkir og bætir við að lögregla hafi smalað fólki frá börunum og inn á torgið. Það hafi verið mistök þar sem um mjög lítið svæði var að ræða.

„Maður vissi ekkert hvað var að gerast í kringum sig“

„Svo gerist eitthvað, ég veit ekki nákvæmlega hvað, en þá byrjum við að sjá táragassprengingar í fjarska. Svo stöndum við allt í einu í miðjum reyknum og þá eru táragassprengingar við hliðina á okkur,“ segir Birkir og bætir við að um mjög óhugnanlegar aðstæður hafi verið að ræða.

Hann hafi fundið fyrir köfnunartilfinningu og séð lítið sem ekkert. „Manni sveið í augun og maður vissi ekkert hvað var að gerast í kringum sig svo þetta var mjög óþægilegt,“ segir Birkir og bætir við að mikil upplausn hafi í kjölfarið átt sér stað.

Birkir og félagar hans lentu í táragassprengingu.
Birkir og félagar hans lentu í táragassprengingu. AFP

Vildu ekki hlaupa í vitlausa átt

„Maður var að reyna að komast úr reyknum en vildi samt ekki hlaupa í vitlausa átt eða á einhvern svo maður myndi ekki slasa sig. Þetta var mjög óþægilegt og maður vissi ekki hvort maður ætti að fara til vinstri, hægri eða vera kyrr,“ segir Birkir og heldur áfram: „Sem betur fer komumst við Júlíus vinur minn í öruggt skjól.“

Þeir vinir fundu skjól við höfnina, en þurftu tíma til að jafna sig að sögn Birkis. „Ég hóstaði í smá stund en svo jafnaði maður sig bara smám saman,“ segir hann.

Leiðinlegur endir á skemmtilegu kvöldi

Stuðningsmennirnir sem saman voru komnir á torginu tvístruðust í allar áttir að sögn Birkis eftir inngrip lögreglunnar, en stuttu síðar fór allt að róast. „Fólk sat á götum úti og jafnaði sig. Við fórum svo bara heim,“ segir Birkir. „Þetta var leiðinlegur endir á annars mjög skemmtilegu kvöldi.“

Birkir segist ekki hafa orðið var við óeirðir í dag, en þeir félagar hafa haldið sig innandyra. Hann segist vonast til þess að ástandið á svæðinu verði betra næstu daga, en þar sem leikur Englands og Rússlands sé yfirstaðinn sé það líklegt. „Það var ekkert svona í gangi þegar Frakkland var að spila, heldur var þetta aðallega í kringum leik Englands og Rússlands. Bretinn er mjög fjölmennur hérna og Rússinn líka svo það var mikið af fólki að fylgjast með þeim leik.“

Fjölmargir hafa gagnrýnt mótshaldara og frönsk yfirvöld fyrir það hvernig staðið var að öryggismálum í kringum leikinn. Breska ríkisútvarpið segir að þeim hafi mistekist að aðskilja stuðningsmenn Englands og Rússlands og það sé stórt áhyggjuefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert