Ásetningurinn ekki að bana vini sínum

Nemendagarðarnir þar sem árásin átti sér stað fyrir utan.
Nemendagarðarnir þar sem árásin átti sér stað fyrir utan. Styrmir Kári

Ekki er um tilraun til manndráps að ræða í hnífstungumálinu við Sæmundargötu heldur um meiri háttar líkamsárás. Þetta sagði verjandi ákærða í málinu í málflutningi sínum og bætti við að aldrei hefði verið ásetningur af hálfu ákærða til að bana brotaþola. Sagði hann ástæðuna fyrir því hvernig málið hefði þróast vera símtal til félaga síns áður en árásin átti sér stað þar sem hann vildi fá lánað hnúajárn og sagðist ætla að drepa brotaþola. Það væri aftur á móti með öllu óraunhæft og aldrei staðið til.

Sagði verjandinn að samtalið hafi verið slitið úr samhengi og væri í raun ekkert annað en fyllerísrugl ákærða þar sem hann væri gríðarlega reiður eftir niðurlægingu brotaþola. Sagði hann það ekki afsökun fyrir því að beita vopnum en að það væri skýringin á því að hafa sagt vini sínum að hann vildi drepa brotaþola. „Hann var að blása,“ sagði verjandinn.

Benti hann til þess að hnífnum hafi verið beitt af handahófi á brotaþola, en endað á mjög óheppilegum stað. Sagði hann að maður sem ætlaði viljandi að drepa annan myndi örugglega finna heppilegri stað en að stinga neðarlega í bakið. Þá hafi ekki verið um ítrekaðar stungur að ræða heldur eina og ákærði hafi, eins og vitni hafi staðfest, bent brotaþola á að það blæddi úr honum.

Stungan var 12,5 sentímetra löng og skar hluta lungans og svo djúpt í lifur brotaþola. Var honum meðal annars haldið sofandi í tvær vikur eftir árásina og fékk fjöllíffærabilun. Þá missti hann mikið blóð og töldu læknar að líkur væru á því að hann fengi jafnvel heilaskemmdir vegna blóðmissisins.

Verjandinn sagði þá einnig að tímarammi atburða skipti miklu máli og það sýndi að frá því að brotaþoli hafi yfirgefið íbúð ákærða og þangað til tilkynnt hefði verið um árásina til Neyðarlínu hafi aðeins verið 10–15 mínútur. „Það er ekki hægt að segja að honum hafi gefist tími til að renna reiðin,“ sagði verjandinn.

Ákærði flúði af vettvangi eftir stunguna, en verjandinn sagði að það skýrðist vegna þess að hann hafi verið í sjokki og að brotaþoli hafi áður ráðist á hann. Stuttu seinna hafi hann þó reynt að ná í brotaþola til að athuga með hann. Því væri ákærði ekki harðsvíraður heldur hafi haft áhyggjur af brotaþola, en þeir höfðu verið vinir til fjölda ára.

Að lokum benti verjandinn til þess að undanfarna þrjá mánuði hefði fallið verið hátt hjá ákærða. Hann hafi verið á síðustu metrunum að klára lögfræði við háskóla. Hann hafi verið aðstoðarkennari, en eftir árásina hafi honum verið vísað úr skóla. Þá sé hann á leið í fangelsi. Bað verjandi dómara um að hugsa til þessa við ákvörðun refsingar. Þá sagði hann að ef dæmt væri út frá tilraun til manndráps ætti að horfa til þess að færa dóminn niður úr fimm ára lágmarki fyrir slíkt brot vegna ástæðna brotsins og stöðu ákærða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert