Fer fram á fimm ára fangelsi

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Saksóknari í máli þar sem karlmaður er ákærður fyrir tilraun til manndráps við Sæmundargötu í mars á þessu ári fór fram á að hann yrði dæmdur í fimm ára fangelsi. Sagði Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari að það lægi fyrir maðurinn hafi verið brotaþola mjög reiður, en að slíkt afsakaði ekki árásina og þótt að brotaþoli hafi ráðist á hann hafi hnífstunga „ekki verið í neinu samhengi við árás brotaþola.“

Ákærði og brotaþoli höfðu í mörg ár verið vinir, en í gleðskap í heimahúsi ákærða kom upp ágreiningur um mynd sem brotaþoli hafði tekið af kærustu ákærða og sent sem óviðeigandi skilaboð á félaga sína. Sagði saksóknari að miðað við gögn málsins og vitnisburð vitna lægi það fyrir að ákærði hefði farið út vopnaður hnífi á eftir vini sínum.

Sagði hún að ákærða hefði ekki getað dulist að árásin gæti dregið brotaþola til dauða og að áverkarnir hafi verið lífshættulegir. Þá hafi það verið hending ein að hann hafi ekki látist, miðað við frásögn lækna. Sagði saksóknari að miðað við skoðun lækna liti út fyrir að hnífurinn sem notaður var við árásina hafi verið með alla vega 12,5 senímetra blaði, en ákærði braut hnífinn eftir árásina og fannst aðeins einn hluti blaðsins.

Saksóknari sagði að „ákveðinn ólíkindablær“ væri á skýringum ákærða fyrir ástæðu þess að hafa tekið með sér hníf út og því væri um ásetning að ræða. Aftur á móti sagði hún einnig að lýsing ákærða á að hann hafi orðið fyrir árás af hendi brotaþola á planinu áður en hnífsstungan átti sér stað sé líkleg. Sagði hún hana studda af frásögn vitna.

Vísaði saksóknari í svipuð mál þar sem um hættulegar hnífstungur væri að ræða og sagði hún ljóst að dæma ætti eftir því að þetta hafi verið tilraun til manndráps. Lágmarksrefsing í slíkum málum væri fimm ára fangelsi og þó að brotaþoli hafi ráðist á ákærða og að teknu tilliti til myndatökunnar sem ósættið kviknaði upp frá sé ekki hægt að veita undanþágu frá því lágmarki.

Brotaþoli í málinu fór einnig fram á 9,7 milljónir í skaða- og miskabætur auk vaxta sem einkakröfu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert