Mínútuspursmál – var við það að deyja

Nýju Stúdentagarðarnir við Sæmundargötu þar sem árásin átti sér stað.
Nýju Stúdentagarðarnir við Sæmundargötu þar sem árásin átti sér stað. mbl.is/Ómar Óskarsson

Það var aðeins mínútuspursmál að maður sem stunginn var við Sæmundargötu í Reykjavík í mars létist ekki og honum til happs að þessa nótt voru skurðstofu- og svæfingarteymi þegar á spítalanum að gera sig tilbúin fyrir aðra skurðaðgerð. Þetta segir skurðlæknir sem bar vitni í málinu, en í dag fer fram aðalmeðferð málsins.

Ósmekkleg myndataka orsök ósættis

Í málinu er ákært fyrir hnífstunguárás þar sem karlmaður stakk annan mann, en þeir höfðu verið saman í partýi heima hjá ákærða ásamt öðru fólki, en ákærði og brotaþoli í málinu voru góðir vinir. Um kvöldið virðist hafa myndast ósætti milli þeirra sem hafi byrjað með því að ákærði taldi brotaþola hafa tekið myndir af kærustunni sinni sem hann taldi ósmekklegar og sent þær ásamt textanum „bitch got a fat azz,“ á Snapchat til fleiri aðila. Mönnunum ber þó ekki saman um hvernig ósættið þróaðist eftir það.

Ákærði í málinu lýsti því hvernig hann hefði boðið nokkrum strákum í partý heim til sín, en auk þess hafi kærastan hans og vinkona hennar verið á staðnum. Þetta hafi verið nokkuð hefðbundið partý þar sem fólk spjallaði og hlustaði á tónlist.

„En svo byrjuðu einhverjar erjur“

Nokkrir hafi svo farið úr partýinu þegar líða tók á kvöldið og að lokum hafi ákærði, brotaþoli, kærasta brotaþola og vinkona hennar verið eftir. Þá hafi myndatakan átt sér stað sem ákærði taldi ósmekklega og í framhaldinu hafi þeir rætt málið, án þess að það yrði að einhverju stórmáli. Stelpurnar hafi farið úr samkvæminu en seinna hafi annað par komið þar við, en verið í stutta stund. Báru þau bæði vitni fyrir dómnum og sögðu að ekki hafi verið um stórmál að ræða, en samt einhverjar erjur. „Þetta var fyrst í lagi, en svo byrjuðu einhverjar erjur,“ sagði vinurinn sem bar vitni.

Eins og fyrr segir greinir brotaþola og ákærða á um framvindu ósættisins og sagði brotaþoli að ljóst hafi verið að myndin hafi einungis verið grínmynd. Sagði hann þá hafa þekkst í 6–8 ár og að um hafi verið að ræða „einkahúmor okkar strákanna.“ Sagði brotaþoli myndina vera „hálfbarnalega“ og að „enginn kynferðislegur undirtónn“ hafi verið á bak við hana. „Hann þekkir mig það vel að hann veit að þetta make-ar ekkert sense,“ sagði brotaþoli þegar hann bar vitni.

Deilurnar fóru „á næsta stig“

Þegar parið var farið fóru að sögn ákærða deilurnar að stigmagnast. „Ég held áfram að tala um þetta [innsk. blaðamanns: myndina] og hann fer að tala um að ég sé nörd og lúði, en eigi sæta kærustu og eigi ekki að gera mál úr þessu,“ sagði ákærði. Hann segir þetta þó ekki hafa verið sárast, heldur hafi brotaþoli farið að nefna einelti sem ákærði varð fyrir í æsku.

„Tók því ekki þegjandi, fer að svara því,“ sagði ákærði og nefndi dæmi um móðganir sem hann hafi þá sagt um brotaþola. Eftir það fóru deilurnar að sögn ákærða „á næsta stig“ þar sem brotaþoli byrjaði að hóta honum ofbeldi og þeir hafi farið að hrinda hvor öðrum.

Brotaþoli neitaði því að hafa verið að ota eineltismálum fortíðarinnar að ákærða, en að honum hafi fundist reiði hans vera meiri en tilefni gáfu til vegna myndarinnar. Hann hafi því spurt hvort hann væri reiður út af einhverju öðru og nefni í réttarsalnum að vandamál hefðu komið upp í vinahópnum vegna ákærða.

Ákærði sagði þegar hann bar vitni að á þessum tíma hafi verið að „blása út“ af reiði. Andrúmsloftið milli þeirra var á þessum tíma orðið slæmt og sagði ákærði að vegna þess hafi brotaþolinn farið út.

Vildi fá hnúajárn frá vini sínum

Ákærði hringdi þá í vin sinn sem hafði áður verið í samkvæminu og beðið um að fá hnúajárn frá honum til að ganga frá brotaþola. Staðfesti vinurinn samtalið fyrir dómi. Útskýrði ákærði þetta atvik á þann veg að þetta hafi aldrei verið raunhæft, meðal annars þar sem vinurinn bjó í Grafarvogi, en þeir voru á nemendagörðum við Háskóla Íslands. Hann hafi aftur á móti verið mjög reiður á þessum tíma. Vinurinn bar einnig vitni um að hann hafi reynt að hringja aftur en ekki náð sambandi, en ekki tekið því sem svo að ákærði ætlaði að láta verða af árás. Hann hafi aftur á móti reynt að athuga með hann seinna um nóttina þar sem hann væri ekki vanur því að fá svona símtöl.

Símtalið slitnaði milli þeirra þegar brotaþoli kom aftur í íbúðina og óskaði eftir að fá að sækja hluti sem hann gleymdi. Ákærði hleypti honum inn og leyfði honum að sækja það og fór brotaþoli út á ný.

Tók hníf með sér út

Ákærði ætlaði að hitta kærustuna sína niðri í bæ um nóttina og ákvað þrátt fyrir ósættið við brotaþola að fara út. Hann sagðist aftur á móti hafa verið hræddur við hann eftir hótanirnar, þar sem talsverður aflsmunur hafi verið á þeim. Hann hafi aftur á móti tekið hnífinn með í öryggisskyni, ef brotaþoli væri að bíða eftir sér. Hann hafi hins vegar ætlað að skilja hnífinn eftir í bílnum sínum úti á plani ef allt væri í lagi.

Greinir á um málsatvik fyrir hnífstunguna

Segir ákærði að á bílaplaninu hafi þeir aftur hist þegar brotaþoli hafi komið að honum. Þarna skarast framburður þeirra tveggja, en ákærði segir að brotaþoli hafi viljað fara aftur í íbúðina til að sækja meira dót. Báðir voru talsvert ölvaðir á þessum tíma. Ákærði segist hafa neitað honum að fara í íbúðina og þá hafi brotaþoli snöggreiðst og skallað sig og kýlt í andlitið. Því hafi ákærði bakkað og þá hafi brotaþoli „hlaðið í högg“ en ekki hitt sig. Þegar það hafi gerst hafi ákærði sótt hnífinn í vasann og stungið brotaþola í bakið.

Brotaþoli sagðist ekki muna mikið eftir því sem gerðist eftir að hann fór úr íbúðinni, en að þeir hafi seinna setið í bílnum sínum saman og hann hafi sýnt ákærða mynd úr símanum sínum sem tengdist samskiptum hans á Facebook sem brotaþoli taldi óviðeigandi.

Frá Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem málið var lfutt.
Frá Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem málið var lfutt.

Telur ákærða hafa veitt sjálfum sér áverka

Þá sagði brotaþoli að hann bæri engin merki þess að hafa lent í átökum, eða að hafa kýlt eða skallað ákærða. Þá sagði hann að sín kenning væri að þar sem ákærði væri lögfræðimenntaður, en hann var á lokaári í lögfræði, hafi hann veitt sjálfum sér áverka sem hann var með í andliti.

Þrjú vitni í málinu vitnuðu fyrir dómi um að hafa séð mennina tvo fyrir utan nemendagarðana og að þeir hafi þar átt í einhvers konar deilum. Þar hafi ákærði hörfað undan brotaþola í kringum bíl, en síðar hafi þeim lent saman. Það hafi aftur á móti verið eftir stunguárásina, en öll vitnin sáu rauðan blett á peysu brotaþola sem reyndist vera blóð úr stungusárinu. Eitt vitnið sá mennina einnig takast á eftir þetta og skiptast á höggum.

Vitnuðu þau einnig um að ákærði hafi á þessum tíma kallað að brotaþola að hann hafi skallað sig, „í afsökunartón,“ eins og eitt vitnið orðaði það.

Flúði af vettvangi

Þegar ákærði gerði sér grein fyrir blóðinu og áverkanum flúði hann af vettvangi en vitni komu brotaþola til aðstoðar. Hringt var í Neyðarlínuna og reynt að stöðva blæðinguna. Missti maðurinn meðvitund áður en lögregla kom á staðinn, en komst aftur til meðvitunar þótt hún væri takmörkuð. Á þessum tíma reyndi ákærði að hringja í brotaþola og sagðist hann fyrir dómi hafa viljað athuga með líðan hans.

Þegar brotaþoli hafði verið fluttur af vettvangi gaf ákærði sig fram við lögreglu og vísaði seinna á hnífsblað sem hann hafði losað sig við í ruslatunnu eftir að hafa brotið það í tvennt eða þrennt.

Í bráðri lífshættu

Skurðlæknir á sjúkrahúsinu sem sá um aðgerðina á brotaþola sagði í dómsal að brotaþoli hefði verið mjög fölur þegar hann kom á sjúkrahúsið og að fara hefði þurft í skurðaðgerð strax þar sem blóðþrýstingur lækkaði ört. Það hafi verið honum til happs að skurðstofuteymi hafi verið búin að undirbúa skurðstofu fyrir aðra aðgerð og að læknar hafi komist strax á staðinn. Í raun hafi það skipt sköpum þar sem brotaþola var að blæða út og sagði hann málið hafa verið mínútuspursmál. Annar sérfræðilæknir sem bar vitni sagði aðspurður að brotaþoli hafi verið í lífshættu og þegar saksóknari spurði hvort hann hafi verið í bráðri lífshættu sagði hann svo hafa verið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert