Hátíðarhöld í miðbænum

mbl.is/Ófeigur

Fjölbreytt hátíðardagskrá er um allt land í tilefni þjóðhátíðardagsins í dag. Fjöldi fólks hefur til að mynda lagt leið sína niður í miðbæ Reykjavík í dag en þar hófst dagskrá snemma í morgun með samhljómi kirkjuklukkna. Ljósmyndari mbl.is er á staðnum og fangar stemmninguna.

Dagskránni í Reykjavík lýkur klukkan sex í dag.

Tvær skúðgöngur lögðu af stað klukkan eitt, önnur frá Hlemmi niður Laugaveginn og hin frá Hagatorgi. Komu þær saman í Hljómskálagarðinum þar sem boðið verður upp á fjölskylduskemmtanir.

Aðalhátíðarsvæðið í ár er nágrenni Reykjavíkurtjarnar en þar verður dagskrá síðdegis. Í görðum og götum verða fjölskylduskemmtanir, tónleikar, götuleikhús, sirkus, leiktæki, veitingatjöld, íþrótta- og fornbílasýningar og margt fleira.

Í Ráðhúsinu er tónlistardagskrá og harmóníkudansleikur en í Iðnó og Fríkirkjunni ráða listhópar Hins hússins ríkjum.

Í Hörpu verða ýmis tónlistaratriði á sviðum í Smurstöðinni og í Hörpuhorni en barnadagskrá með Fjörkörlum og Sirkus Íslands á Norðurbryggju. Í Eldborg leiðir Óperukórinn í Reykjavík þjóðina í söng undir stjórn Garðars Cortes auk annarra tónlistaratriða og einnig verða sýndir  íslenskir þjóðdansar. Þá verður siglingakeppni Brokeyjar í austurhöfninni, kraftakeppni verður á Austurvelli og þjóðhátíðarbænastund verður í Landakotskirkju.

mbl.is