Skiptar skoðanir um nafnalagabreytingar

Það vefst stundum fyrir foreldrum hvaða naf eigi að gefa …
Það vefst stundum fyrir foreldrum hvaða naf eigi að gefa barni. Nýtt lagafrumvarp gerir ráð fyrir auknu frjálsræði um nafngiftir. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég er þeirrar skoðunar það sé æskilegt og mikilvægt að viðhalda íslenskri nafnahefð þannig að fólk kenni sig til föður eða móður. Hins vegar er ekki hægt að viðhalda þeirri hefð með lögum,“ sagði Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslensku við Háskóla Íslands, þegar leitað var álits hans á nýju lagafrumvarpi Ólafar Nordal innanríkisráðherra þar sem gert er ráð fyrir nær algjöru frjálsræði um mannanöfn.

Samkvæmt frumvarpinu, sem er til kynningar á vef ráðuneytisins, verður mannanafnanefnd lögð niður og foreldrum verður frjálst að velja börnum sínum nánast hvaða nafn sem er, konur geta heitið karlmannsnöfnum og karlar kvenmannsnöfnum, ættarnöfn verða leyfð og ekki þarf lengur að uppfylla það skilyrði að nöfn verði nafnbera ekki til ama.

Horft á mannréttindi

Eiríkur telur frumvarpið til stórra bóta. Það afnemi alla helstu agnúa á núverandi lögum. Hann segir að upphaflega hafi menn rætt um mannanöfn út frá verndun íslenskrar tungu. Nú séu viðhorfin breytt og umræðan snúist um að mannanöfn séu sterkur þáttur í sjálfsmynd hvers einstaklings. Litið sé á réttinn til að ráða nafni sínu án afskipta hins opinbera sem mannréttindi. „Ég tel það til dæmis augljóst brot á jafnræðisreglu og mannréttindum að sumir megi hafa ættarnöfn en aðrir ekki. En ég tel líka að þetta komi íslensku máli ekkert við – ættarnöfn eru ekkert síður íslenska en föður- og móðurnöfn. Framtíð íslenskunnar ræðst ekki af því hvort menn bera ættarnöfn eða ekki,“ segir Eiríkur.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að því sjónarmiði hafi vaxið ásmegin að réttur manna til að ráða sjálfir nöfnum sínum og barna sinna

sé ríkari en hagsmunir samfélagsins af því að takmarka þennan rétt. Er í því sambandi m.a. vísað til dómaframkvæmda Mannréttindadómstóls Evrópu. „Réttur manns til nafns er talinn njóta verndar 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs,“ segir í greinargerð.

Guðrún Kvaran, formaður Íslenskrar málnefndar, óttast hins vegar afleiðingar þess að algjört frjálsræði verði tekið upp um mannanöfn. „Ég held að það sé alltaf mikið tap þegar við missum einhvern ákveðinn þátt úr tungumálinu því ég lít á bæði eiginnöfn og nafnakerfi sem hluta tungumálsins. Ef þessi venja, að kenna sig til föður eða móður leggst af, eða verður mjög lítil, þá tel ég þetta mikinn skaða fyrir þjóðfélagið,“ sagði Guðrún í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í gærmorgun.

Óljóst er hvaða afstöðu alþingismenn munu taka til málsins þegar það kemur til þeirra kasta, líklega í haust. Haustið 2013 lögðu fjórtán þingmenn fram frumvarp um breytingar á lögum um mannanöfn þar sem lagðar voru til róttækar breytingar á núgildandi löggjöf. Litlar umræður urðu um málið, en þó mátti ráða af þeim að þingmenn vildu að málið yrði skoðað frekar. Í fyrrasumar lét innanríkisráðuneytið í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands kanna skoðun almennings. Niðurstöður voru þær að meirihluti þátttakenda í könnuninni, eða 60% svarenda, vildi að reglur um mannanöfn yrðu rýmkaðar.

Þeir sem vilja tjá sig um frumvarpið geta sent rökstuddar tillögur og/eða athugasemdir til ráðuneytisins fyrir 1. ágúst næstkomandi.

Ný nafnalög

Samkvæmt frumvarpinu skal við tilkynningu til Þjóðskrár Íslands gefa upp fullt nafn, ritað með bókstöfum íslenska stafrófsins. Engar takmarkanir eru á fjölda eða lengd nafna. Einu formskilyrði eiginnafna eru að þau skulu vera nafnorð, auðkennd með stórum upphafsstaf og án greinis. Nafnorð eru heiti á einhverju, svo sem persónum, dýrum, hlutum eða hugmyndum.

Sé nafn af íslenskum uppruna skal það falla að íslensku beygingarkerfi en ekkert skilyrði er um slíkt ef um viðurkennt erlent nafn er að ræða. Með viðurkenndu erlendu nafni er átt við nafn sem viðurkennt er samkvæmt nafnalöggjöf annarra ríkja.

Við skráningu skal að auki tilgreina svokallað birtingarnafn sem dregið skal af fullu nafni einstaklingsins og innihalda a.m.k. eitt eiginnafn og eitt kenninafn hans. Hægt er

að óska eftir því að birtingarnafn sé stytt með einhverjum hætti. Birtingarnafnið er það nafn sem birt er notendum þjóðskrár og notað í opinberum skrám og skjölum, svo sem í vegabréfum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert