Skilríkin fundust á víðavangi

Þóra Steinunn Pétursdóttir ásamt syni sínum, Pétri Axeli Jónssyni.
Þóra Steinunn Pétursdóttir ásamt syni sínum, Pétri Axeli Jónssyni. /Af Facebook

Mikill er máttur samfélagsmiðla en það sýndi sig heldur betur þegar Þóra Steinunn Pétursdóttir endurheimti á dögunum ökuskírteini sitt og greiðslukort sem hún hafði tapað eftir að hafa verið rænd í Namibíu.

„Við vorum rænd, það var brotist inn hjá okkur aðfaranótt fimmtudagsins, þá vaknar maðurinn minn við eitthvað þrusk,“ segir Þóra en Jón, maðurinn hennar, starfar á skrifstofu Samherja í Namibíu. Jón fór fram þegar hann varð var við þruskið en þar stóð óboðinn gestur sem Jón rak á dyr. Hann tók þá ekki eftir því að maðurinn hafði gripið með sér tösku Þóru.

Á föstudag fær Þóra símtal þess efnis að ökuskírteini hennar hafi fundist en kona að nafni Michelle Taljaard Wilson fann eigur Þóru í runna við gólfvöllinn í Walvis Bay. Michelle deildi mynd af ökuskírteini Þóru á Facebook í von um að finna eigandann. Viðbrögðin létu ekki á sér standa en yfir 700 manns deildu færslunni og áður en langt var um liðið fékk Þóra skírteinið og kortin aftur í hendurnar.

Þrátt fyrir að Þóra hafi endurheimt ökuskírteinið telur hún tjónið nema um 200 þúsund krónum. Taskan hennar var frá hönnuðinum Marc Jacobs og í henni voru dýr sólgleraugu og seðlaveski. Verst þykir henni þó að einnig voru í veskinu gleraugu átta ára dóttur hennar sem hún þarf á að halda.

Þóra segir frá því, að daginn eftir ránið hafi morð verið framið skammt frá heimili vinahjóna þeirra sem eru búsett í Namibíu, en maðurinn starfar einnig hjá Samherja. „Það voru fimm vopnaðir menn sem brutust inn, bara nokkrum húsum frá, skutu manninn í magann, lömdu konuna í hakk og maðurinn dó víst í gær,“ segir Þóra en hún segir mennina vera í haldi lögreglu.

Þrátt fyrir þessa lífsreynslu hefur fjölskyldan það fínt en Þóra hyggst vera í mánuð í Namibíu með börn þeirra hjóna. „Hér er vetur og 22 stiga hiti og spáir 27, þannig við höfum það fínt,“ segir Þóra að lokum.

Færsluna sem fór á flug má sjá hér.

mbl.is