Heldur áfram að vera lítið hlaup

Hlaupið í Skaftá kem­ur lík­leg­ast úr Vest­ari-Skaft­ár­katli, sem síðast hljóp …
Hlaupið í Skaftá kem­ur lík­leg­ast úr Vest­ari-Skaft­ár­katli, sem síðast hljóp úr í júní 2015. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hlaupið í Skaftá heldur áfram að vera lítið hlaup, en engar breytingar hafa orðið á rennsli árinnar frá því að Veðurstofa Íslands sendi frá sér fréttatilkynningu í gær um að hlaup væri líklega hafið.

Bjarki Friis, sérfræðingur á hjá náttúruvá Veðurstofu Íslands, segir smá sveiflur vera í rennsli árinnar. „Vatnshæðin er lægri en hún var um miðnætti, en hún gæti þó hækkað á ný. Rennsli í ánni nú er um 113 rúmmetrar á sekúndu, en um miðnætti mældist rennslið 137 rúmmetrar á sekúndu,“ segir Bjarki.

Þetta haldi áfram að vera lítið hlaup, „en við fylgjumst þó vel með því áfram.“

Rennsli Skaft­ár við Sveinstind hef­ur verið að aukast síðustu daga og minni hátt­ar aukn­ing hef­ur einnig orðið í raf­leiðni. Sum­ar­leys­ing á jökli eða rign­ing­ar or­saka ekki hið aukna rennsli.

Talið er að hlaupið komi líklega úr Vestari-Skaftárkatli, sem síðast hljóp úr í júní 2015. Vegna hins stutta tíma sem liðið hefur milli hlaupa úr þeim katli er ekki talið að hætta sé á ferðum. Upptök hlaupsins fást hins vegar ekki staðfest nema með athugunum úr flugi yfir katlana.

Hlaupið getur staðið yfir næstu daga, en talið er að hámarksrennsli við Sveinstind hafi annaðhvort verið náð í nótt eða að hámarksrennsli verði náð í dag.

Minniháttar Skaftárhlaup er líklega hafið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert