Ekki víst að Bretar fari úr ESB

AFP

Stjórnmálafræðiprófessorinn Baldur Þórhallsson segir það ekki öruggt að Bretar séu á leið úr Evrópusambandinu þrátt fyrir að meirihluti þjóðarinnar hafi kosið úrsögn í þjóðaratkvæðagreiðslunni á fimmtudaginn var.

Baldur bendir á að það sé þó nokkur hópur frammámanna í breskum stjórnmálum sem eru nú að leita leiða til að tryggja áframhaldandi aðild Bretlands að Evrópusambandinu. „Sem dæmi má nefna að leiðtogi skoska þjóðarflokksins telur að það þurfi samþykki skoska þingsins til að virkja 50. grein Lissabon-sáttmálans og hefja viðræður Breta um úrsögn úr sambandinu,” segir Baldur. „Ef Cameron og forysta Íhaldsflokksins, sem er að mestu fylgjandi áframhaldandi aðild, vilja halda Bretum inni geta þeir notað þetta sem afsökun, að Skotar stöðvi málið.”

Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands.
Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það gæti þó reynst stór biti fyrir Breta að kyngja að veita skoska þinginu svona mikil völd að sögn Baldurs. Hann segir einnig að verið sé að afla því fylgis að Bretar kjósi um samning við ESB þegar samningaviðræðum er lokið. „Og ef samningurinn verður felldur þá verða Bretar áfram inni,” segir Baldur um hugsunina að baki slíkri aðferðafræði.

Hann segir að á komandi vikum muni heimsbyggðin verða vitni að áframhaldandi ólgu innan bresku stjórnarinnar, innan Íhaldsflokksins, innan Verkamannaflokksins og á bak við tjöldin munu menn takast á um það innan stjórnarinnar hvort það eigi að fara úr sambandinu eða leita leiða til að vera þar áfram.

Tekur einhver ár að vinda ofan af aðild Breta að Evrópusambandinu

„Það eru mjög sterk öfl sem róa að því öllum árum að halda Bretlandi inni í Evrópusambandinu,” segir Baldur og bendir í þriðja lagi á að þjóðaratkvæðagreiðslan sé aðeins ráðgefandi en ekki bindandi. „Þjóðaratkvæðagreiðslan skuldbindur ekki bresku ríkisstjórnina til að virkja ákvæðið. Stjórnmálamenn hafa sagst ætla að virða niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar en það verður erfitt að fara með þetta inn í þingið og ætlast til þess að meirihluti þingheims, sem er hlynntur aðild, greiði atkvæði með úrsögn. Það flækir málin,” segir Baldur.

Hann segir þó að eins megi finna stuðningsmenn áframhaldandi aðildar sem telja einfaldlega að það beri að virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar og að Bretar verði að fara út. „Það bíður þeirra langt ferli,” segir Baldur. „Bæði að gera nýjan samstarfssamning við ESB, nýja fríverslunarsamninga við lönd um allan heim og nýja breska löggjöf sem tekur við af ESB-löggjöfinni,” segir Baldur sem segir að það taki að öllum líkindum einhver ár að vinda ofan af aðild Breta að Evrópusambandinu.

Engar viðræður fyrr en Bretar hefja úrsagnarferlið formlega

Baldur segir leiðtoga Evrópusambandsríkja og stofnana ESB hafa sammælst um að það fari engar viðræður fram við Breta, hvorki formlegar né óformlegar, fyrr en Bretar hafa virkjað 50. grein Lissabon-sáttmálans.

„Ef ákvæðið er virkjað þá hefur Evrópusambandið tvö ár til að gera nýjan samning,” segir Baldur og bætir við að ef samningur næst ekki segir Bretland skilið við Evrópusambandið einfaldlega án þess að samningar séu í gildi á milli Bretlands og ESB. „Það vilja Bretar fyrir alla muni koma í veg fyrir, ekki síður þeir sem vilja ganga úr sambandinu. Þeir átta sig á mikilvægi viðskiptasamninga og annarra samninga við sambandið,” segir Baldur.

„Evrópusambandið hefur sagt það skýrt að það muni ekki ræða við Breta fyrr en ákvæðið verður virt,“ segir Baldur og bætir því við að staða Þjóðverja og Frakka innan Evrópusambandsins styrkist verulega fari Bretar úr sambandinu.

Þingkosningar í Bretlandi á næstunni er möguleiki

Íhaldsflokkurinn kom saman í gær og ákvað að eftirmaður Camerons tæki við eigi síðar en 2. september nk. Baldur segir nú alla bíða eftir því að sjá hver eftirmaður hans verður. „Boris Johnson [fyrrverandi borgarstjóri Lundúna] er í mjög sterkri stöðu en það er ekki sjálfgefið að hann verði valinn. Theresa May [innanríkisráðherra Bretlands] sem vill áframhaldandi aðild að ESB er líka í ágætri stöðu,” segir Baldur.

Theresa May, innanríkisráðherra Bretlands.
Theresa May, innanríkisráðherra Bretlands. AFP

Mikið hefur hitnað undir Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins. Yfir 80% þingmanna flokksins greiddu í dag atkvæði með vantrauststillögu gegn honum. Ráðherrar skuggaráðuneytis Corbyns hafa margir hverjir sagt af sér og segja Corbyn rúinn trausti. „Vandi Corbyns er sá að meirihluti þingflokksins er ekki á hans bandi og hefur horn í síðu hans. Vandi þingflokksins er aftur á móti sá að almennir flokksmenn Verkamannaflokksins kusu Corbyn með yfirgnæfandi meirihluta. Hann hefur enn þá mikinn stuðning meðal almennra flokksmanna,” segir Baldur.

Boris Johnson, fyrrverandi borgarstjóri Lundúna.
Boris Johnson, fyrrverandi borgarstjóri Lundúna. AFP

„Verkamannaflokkurinn er í verulegri krísu. Þó að þingflokkurinn lýsi yfir vantrausti þá þarf hann ekki að fara frá,” segir Baldur. „Flokkurinn er illa klofinn í málinu og er engan veginn í stakk búinn til að fara í kosningar,” heldur hann áfram.

Spurður hvort það sé líklegt að boðað verði til þingkosninga í Bretlandi á næstu misserum segir Baldur það vel geta farið svo. „Ef nýr leiðtogi Íhaldsflokksins fær mikinn meðbyr og Verkamannaflokkurinn er enn í sárum þá gæti leiðtogi Íhaldsflokksins boðað til kosninga fyrir jól eða fyrri hluta næsta árs. Það er alveg inni í myndinni,” segir Baldur. „Til þess að fá skýrt umboð til að leiða þjóðina í þessar erfiðu samningaviðræður og fyrir þessa krísu sem Bretar eru búnir að koma sér í.”

mbl.is