Grunur um skattsvik á Strawberries

Strawberries.
Strawberries. mbl.is/Golli

Hæstiréttur vísaði í dag frá máli eiganda kampavínsstaðarins Strawberries, sem kærði úrskurð héraðsdóms þar sem kröfu hans um að fella úr gildi kyrrsetningar Sýslumannsins í Reykjavík á eigum hans var hafnað.

Kyrrsetning eignanna tengist rannsókn á stórfelldum skattsvikum eiganda staðarin,s en fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur kom fram að talið væri að hann hefði vantalið tekjur sínar um rúmar 64 milljónir og virðisaukaskattskylda veltu og útskatt um rúmar 230 milljónir króna.

Grunur vaknaði um stórfelld skattsvik við rannsókn á staðnum vegna ætlaðrar sölu og milligöngu vændis. Við könnun á fjármálum eiganda Strawberries og félaga tengdra honum hefði grunurinn kviknað og því hefði verið opnuð rannsókn á meintum brotum hans á stórfelldum skattalagabrotum og peningaþvætti.

Meðal þeirra muna sem lagt var hald á eru tíu tölvur, peningaseðlar, harðir diskar, þrjár fasteignir, 19 bílar, bátur, sex og hálf milljón króna á bankareikningum auk hlutabréfa í tveimur félögum.

Í dómi Hæstaréttar segir að kærufrestur sé þrír sólarhringar frá því að aðili fái vitneskju um úrskurðinn. Kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran barst héraðsdómi og samkvæmt því beri að vísa málinu frá Hæstarétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert