Marco sýknaður í héraði

Mikla at­hygli vakti hér á landi þegar Marco sett lit …
Mikla at­hygli vakti hér á landi þegar Marco sett lit í Strokk. Ljós­mynd/​Marco Evarist­ti

Héraðsdómur Suðurlands sýknaði í gær listamanninn Marco Antoinio Evaristti af ákæru um að hafa brotið náttúruverndarlög með því að hella rauðum matarlit ofan í hverinn Strokk á hverasvæðinu við Geysi.

Var Evaristti, sem ber listamannanafnið Marco, sýknaður meðal annars með vísan til þess að orðalag þess ákvæðis náttúruverndarlaga sem ákært var fyrir var ekki talið uppfylla kröfur um skýrleika refsiheimilda.

Land­eig­andi að Geys­is­svæði kærði Marco til lög­reglu.

Atvikið átti sér stað föstudaginn 24. apríl í fyrra. Í ákæru kom fram að umhverfi hversins hafi verið raskað, þar sem hverinn gaus rauðlituðu vatni sem sat eftir í pollum og litablettur urðu eftir á steinvölum og hverahrúðri í kringum hann, þar sem litarefnið slettist á og sat eftir um nokkurn tíma.

Var málið höfðað gegn Marco með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á Suðurlandi þann 30. nóvember í fyrra.

Marco neitaði sök og vísaði til þess að háttsemin, sem honum var gefin að sök í ákæru, væri ekki refsiverð samkvæmt íslenskum lögum.

Vildi annast umhverfið og náttúruna

Marco neitaði sök og vísaði til þess að háttsemi sú sem honum var gefin að sök í ákæru væri ekki refsiverð samkvæmt íslenskum lögum. Í skýrslutöku fyrir dómi viðurkenndi hann að hafa, umræddan morgun, hellt fimm lítrum af „listamannalit“ niður í hverinn. Um hafi verið að ræða gjörning, listviðburð eða landslagslist, þ.e. hann hafi notað landslag sem nokkurs konar striga fyrir málverk. Fyrir honum hafi vakað að annast umhverfið og náttúruna, búa til fallegt listform og hafi hann við það notað efni sem með öllu hafi verið skaðlaust náttúrunni.

Sannað var í málinu, með vísan til framburðar Marco fyrir dómi, sem fékk stoð í rannsóknargögnum málsins, að hann hafi hellt fimm lítrum af rauðum matarlit ofan í hverinn Strokk. Einnig var sannað að þegar hverinn gaus eftir þann verknað barst rauðlitað gosvatn í jarðveg og polla kringum hverinn.

Þá þótti einnig fyllilega sannað með vísan til framburðar vitnis, sem kannaði aðstæður við Strokk rétt eftir hádegi umræddan dag, að ummerki hafi verið sýnileg í jarðvegi í kringum hverinn.

Refsiheimildir ekki skýrar

Hins vegar var niðurstaða dómsins sú að þau ákvæði náttúruverndarlaga, sem ákært var fyrir í málinu, hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem gera verður til skýrleika refsiheimilda. Því var Marco ekki sakfelldur fyrir brot gegn þeim ákvæðum.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands

Listamaðurinn Marco Ant­onio Evarist­ti.
Listamaðurinn Marco Ant­onio Evarist­ti. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert