Þúsundir styðja tvöföldun Reykjanesbrautar

Með tvöföldun Reykjanesbrautarinnar var umferð úr gagnstæðum áttum aðskilin til …
Með tvöföldun Reykjanesbrautarinnar var umferð úr gagnstæðum áttum aðskilin til að koma í veg fyrir frekari banaslys með framúrakstri og framanákeyrslum. Tvöföldun hefur enn ekki verið kláruð á nokkrum stöðum á leiðinni. mbl.is/Golli

Í gærkvöldi stofnuðu þeir Guðbergur Reynisson og Ísak Ernir Kristinsson Facebook-hóp sem er hugsaður sem vettvangur til að þrýsta á yfirvöld um að klára tvöföldun Reykjanesbrautar. Á rétt rúmlega sólarhring hafa tæplega átta þúsund manns gengið í hópinn og miðað við ummæli fólks í hópnum virðast margir langeygðir eftir að tvöföldun verði kláruð.

Ísak segir í færslu á hópnum að hópurinn sé stofnaður til að búa til vettvang til að beisla orku og umræðu í tengslum við málið, en að beðið verði með aðgerðir eins og undirskriftasöfnun þar til rétti tímapunkturinn komi. Segir hann að aðstandendur hópsins vilji halda áfram með baráttu svokallaðs Á-hóps sem var stofnaður í desember 2000 eftir alvarlegt slys á Reykjanesbrautinni. „Við viljum höfða til stjórnvalda á eðlilegum og uppbyggilegum nótum. Það er ekki endilega víst að mótmæli, t.d. lokun vega, sé leið til árangurs,“ segir Ísak.

Guðbergur segir í annarri færslu að allir þingmenn Suðurlandskjördæmis ættu að vera í hópnum sem og sveitarstjórnarmenn á svæðinu og þeir sem einhverju ráði þar. Segir hann hópinn og þetta málefni snúast um Suðurnesin. „Það er betra að vinna þessa hluti með fólkinu okkar heldur en með skítkasti og með því að kenna einhverjum um að ekki hafi eitthvað hitt eða þetta verið gert,“ segir Guðbergur í færslu sinni.

Bendir hann á að á þessu ári sé gert ráð fyrir um tveimur milljónum ferðamanna og þeir fari allir þessa sömu leið frá flugstöðinni. „Byrjum því á byrjuninni og tvöföldum alla Reykjanesbrautina,“ segir hann.

Hópurinn Stopp hingað og ekki lengra!

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert