Breytir ekki stöðu Gunna hjá UFC

Gunnar Nelson UFC-bardagakappi.
Gunnar Nelson UFC-bardagakappi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Haraldur Dean Nelson, framkvæmdastjóri Mjölnis og faðir Gunnars Nelson bardagakappa, á ekki von á því að eigendaskiptin á UFC-bardagasamtökunum komi til með að hafa áhrif á stöðu Gunnars í UFC. Bræðurnir Lorenzo og Frank Fertitta seldu stærstan hluta bréfa sinna fyrir fjóra milljarða bandaríkjadala.

Frétt mbl.is: Nýir eig­end­ur hjá UFC

„Það kemur mér ekki á óvart að kaupverðið sé þetta hátt,“ segir Haraldur. „Eins og ég hef áður sagt, þetta er risasport. Menn segja að þetta sé mest vaxandi sport í heiminum í dag. Þeir [nýju eigendurnir] líta á þetta sem góða fjárfestingu og ég held að það sé rétt hjá þeim.“ 

Lorenzo, annar bræðranna, var mikill aðdáandi Gunna. „Hann hefur kannski sagt það við alla,“ segir Haraldur og hlær, en bætir svo við að hann hafi heyrt af aðdáun Lorenzo á Gunna frá fleirum en Lorenzo sjálfum.

Feðgarnir Gunnar Nelson og Haraldur Dean Nelson.
Feðgarnir Gunnar Nelson og Haraldur Dean Nelson. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Haraldur óskar nýju eigendunum til hamingju með kaupin á UFC, en hann segist ekki þekkja þá. Á sama tíma þakkar hann þeim gömlu fyrir gott samstarf en fínt samband var á milli Íslendinganna og þeirra.

Að sögn Haraldar hafði hann heyrt orðróm um að söluferli væri í gangi á UFC en teymi Gunna hefði þó ekki fengið neinar upplýsingar um kaupin fyrr en þeir lásu um þau í fjölmiðlum.

„Við vitum ennþá sáralítið um þetta, ég ætla að leyfa vesturströndinni að vakna,“ segir Haraldur en Íslendingarnir eru í góðu samstarfi við aðila þar og ætlar Haraldur að hlera þá í dag varðandi söluna.

Í framhaldinu hyggst hann heyra í UFC og nýju eigendunum. „Ég á ekki von á öðru en að hlutirnir verði óbreyttir hvað okkur varðar. Við munum að sjálfsögðu hafa samband og heyra í mönnum, láta þá vita af okkur og óska þeim til hamingju. Svona eins og eðlilegt er,“ segir Haraldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert