Engin ákvörðun tekin strax

Ragnheiður Elín á fundinum í dag.
Ragnheiður Elín á fundinum í dag. mbl.is/Eggert

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir að engar ákvarðanir verði teknar á þessu kjörtímabili um hvort leggja eigi sæstreng til Bretlands. Ekkert slíkt verður ákveðið nema að undangengnu ítarlegu samtali hér á landi.

Eins og kunnugt er hefur verkefnisstjórn sæstrengs nú skilað lokaskýrslum til iðnaðar- og viðskiptaráðherra um skoðun á sæstreng á milli Íslands og Bretlands. Ein af niðurstöðum skýrslnanna er að verkefnið nær ekki lágmarksarðsemi nema til komi beinn stuðningur frá breskum stjórnvöldum.

Vegna sérstöðu verkefnisins þarf að sérsníða viðskiptalíkan, stuðningskerfi og regluverk fyrir það. Að því gefnu að það gangi eftir geta jákvæði áhrif á landsframleiðslu verið umtalsverð, eða um 1,2-1,6%.

Ragnheiður Elín sagði á blaðamannafundi í ráðuneytinu í dag að markmiðið með vinnunni hefði verið að skoða verkefnið út frá sem flestum hliðum þess til þess að hægt sé að eyða ákveðnum óvissuþáttum og svara þeim spurningum sem uppi hafa verið með eins góðum hætti og hægt er.

Gæti verið ábatasamt

Hún sagði að menn væru sammála um að tæknilega væri lagning sæstrengs nú möguleg. Það hefði breyst frá því sem áður var.

Eins væri sýnt fram á í skýrslunum að sæstrengur geti verið ábatasamur að gefnum ákveðnum forsendum, þá fyrst og fremst að til kæmi fjárhagslegur stuðningur frá Bretum.

Óvissuþættirnir væru hins vegar ýmsir. Til dæmis væri ekki hægt að láta gera umhverfismat áætlana á verkefninu, þar sem það væri enn á hugmyndastigi.

Eins væri ljóst að ráðast þyrfti í gríðarlegar virkjanaframkvæmdir sem yrðu á við tvær Kárahnjúkavirkjanir og leggja í fjárfestingar til að styrkja flutningakerfið. Allt þetta þyrfti að ræða áður en lengra yrði haldið.

„Ræðið!“

Engin ákvörðun um framhald verkefnisins yrði jafnframt tekin á þessu stigi eða fyrir kosningar. Markmiðið með vinnunni hafi aðeins verið að leiða fram allar helstu upplýsingar um verkefnið.

„Nú eru gögnin komin á borð­ið og ég segi: ræð­ið!“ sagði ráðherrann.

Hún benti einnig á að skýrslum verkefnisstjórnarinnar hefði verið skilað til sín áður en Bretar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu að segja skilið við Evrópusambandið. Óvíst væri hvaða áhrif möguleg útganga þeirra myndi hafa á verkefnið og væri það breskra stjórnvalda að svara því.

Orkustefna Breta væri til að mynda byggð á orkustefnu Evrópusambandsins og óljóst væri hvort útgangan myndi leiði til þess að Bretar drægju úr áherslum sínum og markmiðum um að auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í sínum orkubúskap, sem hefði þá neikvæð áhrif á verkefnið.

Einnig þyrfti að fylgjast náið með gengisþróun breska pundsins og áhrif þess á viðskiptalegar forsendur verkefnisins.

Fréttir mbl.is:

Áhugaverður kostur en óvissan mikil

Stuðning­ur Breta for­senda sæ­strengs

mbl.is/Eggert
mbl.is