Hraðspólaði yfir sex tíma teikningu

Rakel Tómasdóttir hefur sent frá sér hraðteiknimyndband.
Rakel Tómasdóttir hefur sent frá sér hraðteiknimyndband. Ljósmynd/Aðsend

Rakel Tómasdóttir hefur sent frá sér svokallað „speed drawing“-myndband á Youtube sem sýnir teikningu hennar af konu.

Myndbönd sem þessi hafa notið mikilla vinsælda á Youtube og ákvað Rakel, sem er nýútskrifuð sem grafískur hönnuður úr Listaháskóla Íslands, að spreyta sig á einu slíku. 

„Ég bjó til stand úr lampa og náði þannig réttu sjónarhorni beint ofan frá. Svo tók ég upp á símanum mínum allan tímann sem ég var að teikna. Eftir á tók ég allt saman, hraðspólaði og klippti saman,“ útskýrir Rakel.

Tók hátt í sex klukkustundir

Þrátt fyrir að myndbandið sé um tvær og hálf mínúta, var Rakel öllu lengur að teikna myndina, eða fimm klukkustundir og 40 mínútur. Myndina teiknaði hún eftir ljósmynd sem hún hafði fyrir framan sig.

Lærir af öðrum 

„Það eru rosalega margir þarna úti að gera svona myndbönd. Ég horfi sjálf mikið á svona og hef lært fullt á því. Þó svo að maður sé ekki með nákvæmar leiðbeiningar þá lærir maður af því að sjá hvernig aðrir gera,“ segir teiknarinn snjalli.

Rakel hefur áður sett stutt myndbönd á Instagram-síðuna sína en þetta er í fyrsta sinn sem hún tekur upp heila teikningu frá byrjun til enda. 

Rakel Tómasdóttir. Speglarnir eru hluti af lokaverkefni hennar í LHÍ.
Rakel Tómasdóttir. Speglarnir eru hluti af lokaverkefni hennar í LHÍ. Ljósmynd/Aðsend

Einhvers konar hugleiðsla

Sjálf hefur hún verið að teikna frá því hún man eftir sér en aðspurð segir hún teikningarnar eingöngu vera áhugamál og ætlar ekki að leggja slíkt fyrir sig í framtíðinni. Grafíska hönnunin á hug hennar allan en hún starfar sem hönnuður hjá tímaritinu Glamour.

„Það að teikna er fyrir mér hliðarhobbý en þetta er rosalega gaman. Þetta er líka þægilegt, eins og einhvers konar hugleiðsla, þegar maður er að þessu.“

Hér má sjá hraðteiknimyndband frá Agnesi Cecile sem er í miklu uppáhaldi hjá Rakel:


Fleiri verk Rakelar má sjá á vefsíðu hennar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert