Hundrað köttum haldið í tveggja hæða húsi

Fjarlægja þurfti annað auga læðunnar Milly sem var ein kattanna …
Fjarlægja þurfti annað auga læðunnar Milly sem var ein kattanna 100. Ljósmynd/ Félagið Villikettir

Síðustu mánuði hefur dýraverndunarfélagið Villikettir unnið að björgun um 100 katta sem bjuggu við ömurlegar aðstæður í einu og sama húsnæðinu. Rúmlega helmingur kattanna hefur verið fjarlægður og margir fengið nýjar fjölskyldur en enn eru hátt í 50 kettir eftir á heimilinu. Þær Olga Perla Nielsen, Arndís Kjartansdóttir og María Krista Hreiðarsdóttir, stjórnarkonur í Villiköttum, ræddu við mbl.is um málið og segja þær félagið uppiskroppa með fjármagn og úrræði vegna málsins.

Bað um vin

Félagið Villikettir var stofnað til að sinna velferð villikatta, eins og nafnið bendir til, og sinnir yfirleitt ekki aðstoð með heimilisdýr. Eins og gefur að skilja er umrætt mál hins vegar afar sérstakt. Það kom inn á borð Villikatta um mánaðamótin mars-apríl en þá fékk Olga, formaður félagsins, símtal frá eiganda húsnæðisins.

„Viðkomandi kynnti sig ekki en spurði mig hvort ég væri ekki mikill dýravinur. Ég játti því að sjálfsögðu og spurði í framhaldi um hvað málið snerist. Þá sagði viðkomandi að sig vantaði vin – vin eins og mig til að hjálpa sér,“ segir Olga. „Ekki var uppgefið í samtalinu um fjölda dýra en ég játti því að koma og kíkja til að sjá hvernig aðstæður þetta væru.“

Júlía litla var mjög veik en fékk góða umönnun í …
Júlía litla var mjög veik en fékk góða umönnun í Kisukoti. Ljósmynd/ Félagið Villikettir

Hún segir að sig hafi grunað að málið væri alvarlegt en ástandið hafi orðið henni, og hinum sem að komu, mikið áfall. Strax hafi verið ljóst að ekki væri hægt að bjóða dýrunum að búa við þessar aðstæður.

Arndís lýsir aðkomunni fyrir blaðamanni. Um er að ræða tveggja hæða hús og var köttunum skipt á milli hæða. Uppi voru gæfari kettir en þeir sem bjuggu niðri, í kjallara hússins, voru styggari og óvanari mannaferðum. Köttunum var haldið inni og höfðu flestir líklega aldrei komið út undir bert loft.

„Í kjallaranum voru aðstæður mjög slæmar, saur um öll gólf og lyktin svo svakaleg að mann sveið í augun og nefið,“ segir Arndís. „Þar voru þrír hundar innilokaðir í herbergi með líklega sjö kisum. Þeir létu mjög ófriðlega og geltu allan tímann sökum þess að þeir fengu lítið að fara út og litla umönnun.  Kisurnar sem þar voru inni hafa verið mjög „sjokkeraðar“ auk hundanna að sjálfsögðu. Á efri hæðinni var aðkoman skárri, en þar mættu okkur tugir katta, mun fleiri en við höfðum gert ráð fyrir.“

Fengu hafragraut í harðæri

Villikattakonur höfðu mætt vel undirbúnar, með kattabæli, kattasand og fullan bíl af mat, en í húsinu voru allar matarskálar tómar. Arndís segir kettina hafa hópast að eins og hungraða úlfa þegar skálarnar voru fylltar.

„Eigandinn sagðist stundum gefa þeim hafragraut þegar hann hefði ekki efni á mat. Við komum einnig með vatn því ekkert vatn var í húsinu og enginn hiti, en húsið var hitað með rafmagnshitaofnum og veruleg hitasvækja var inni sem svo blandaðist megnum fnyk af ammoníaki og saur,“ segir hún.

„Við tókum með okkur nokkra poka af kattasandi og ílát undir sandinn og þegar við vorum búnar að fylla á og koma fyrir þá var röð í að fá að nota sandinn.  Einnig komum við með bæli fyrir þær til að leggjast í og var það strax nýtt.“

Kettirnir voru á öllum aldri, alveg frá því að vera tveggja daga gamlir og upp í margra ára gamla ógelta fressketti og læður. Þær Arndís, Olga og María segjast ekki vita hvaðan þeir komu upprunalega. Líklega hafi eigandinn verið með nokkra ógelta ketti sem svo hafi fjölgað sér hratt. Að auki kveðst eigandinn hafa bjargað inn köttum á vergangi.

Tók á tilfinningalega

Stjórnarkonur Villikatta hafa nú farið fjórar ferðir á staðinn að sækja ketti og nokkrar aukaferðir með mat og sand fyrir þau dýr sem eftir eru. María segir að ekki hafi þurft að lóga neinum ketti í upphafi en allir hafi þeir þurft að fara til læknis. Þeir hafi enda allir verið með niðurgang, þurrir og vannærðir. Fjarlægja þurfti annað augað úr tveimur læðum og seinna reyndist nauðsynlegt að lóga einum kattanna, fressinu Bjössa, sem barist hefði við langvarandi lungnabólgu.

Embla litla var með slæma augnsýkingu sem át upp í …
Embla litla var með slæma augnsýkingu sem át upp í henni augun. Hún hefur nú fundið heimili. Ljósmynd/ Félagið Villikettir.

„Það var hræðilegt að taka á móti þessum kisum í athvarfið okkar, það angaði allt af saur og þvagi, sumar ældu á leiðinni og þær gátu vart staðið í fæturna þegar þær komu á leiðarenda,“ segir María.

„Margir kattanna voru mjög vannærðir, slasaðir eftir hundskjaft eða með lungnabólgu. Hitastig var mjög breytilegt í húsnæðinu og ekkert rennandi vatn sem öllum dýrum er nauðsynlegt. Að horfa í augun á þessum sárþjáðu dýrum var erfitt og tók verulega á okkur allar tilfinningalega.“

Félaginu finnst mikilvægt að þakka þeim dýralæknum sem komu að því að sinna köttunum og gelda og senda Dýralæknastofu Reykjavíkur, Dýraspítalanum í Víðidal og Dýralæknamiðstöðinni Grafarholti sérstakar kveðjur.

„Þetta eru allt frábærir læknar sem lögðust á eitt með okkur og fórnuðu tíma sínum endalaust til að koma kisunum til hjálpar. Eins viljum við þakka þeim einstaklingum sem lagt hafa fram fjármagn úr eigin vasa til að hjálpa okkur sem dugar þó því miður skammt í svona gífurlega stóru verkefni.“

Átta kettir úr húsinu eru nú í umsjá Villikatta og …
Átta kettir úr húsinu eru nú í umsjá Villikatta og þeir eru allir í heimilisleit. mbl.is/ Samsett mynd

Ærið verk en úrræðin fá

Þótt verkefnið væri tröllvaxið hafa flestir kattanna sem félagið tók að sér, sem og kettlingarnir sem fæddust í umsjá þess, fengið góð heimili til frambúðar. Sem stendur eru um 10 fullorðnir kettir í umsjá félagsins, sem allir þurfa á heimili að halda. Þar að auki eru hátt í 50 kettir eftir á heimilinu sem allir eru mjög veikir og illa haldnir, þar á meðal kettlingafullar læður og nýfæddir veikir kettlingar.

Olga tekur fram að einstaklingurinn sem um ræðir hafi verið samvinnuþýður frá upphafi, leyft félaginu að ráða ferðinni og verið því þakklátur. Enn sé þó ærið verk fyrir höndum og félagið, sem rekið er í sjálfboðaliðastarfi, ráði illa við það.

„Við höfum miklar áhyggjur af þeim köttum sem eftir eru og við fáum ítrekað beiðnir frá eiganda hússins um að koma með mat því hann virðist engan veginn hafa ráð á því að sinna þeim, það finnst okkur auðvitað hræðilegt,“ segir María.

„Félagið okkar er einfaldlega uppiskroppa með fjármagn og úrræði vegna þessa máls og því getum við ekki tekið fleiri þótt við fegnar vildum.“

Félagið Villikettir hefur komið sér upp litlum kofa þar sem …
Félagið Villikettir hefur komið sér upp litlum kofa þar sem hægt er að hlúa að köttunum og venja þá á hefðbundið heimilislíf. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

 Frekari upplýsingar um Villiketti og hvernig styðja má starfið má finna með því að smella hér.

Hægt er að styrkja félagið í gegnum reikningsnúmerið: 0111-26-73030 og  kennitölu: 710314-1790.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert