Stuðningur Breta forsenda sæstrengs

Lagning sæstrengs kann að reynast bæði Íslendingum og Bretum þjóðhagslega …
Lagning sæstrengs kann að reynast bæði Íslendingum og Bretum þjóðhagslega hagkvæm. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Vísbendingar eru um að lagning sæstrengs frá Íslandi til Bretlands kunni að reynast báðum ríkjunum þjóðhagslega hagkvæm og viðskiptalega arðsöm. Forsenda þess er þó sú að til komi fjárhagslegur stuðningur frá breskum stjórnvöldum.

Þetta er á meðal niðurstaðna í viðamikilli skýrslu Kviku og Pöyry um mat á áhrifum slíks raforkustrengs á grunvelli ítarlegrar kostnaðar- og ábatagreiningar. Niðurstöðurnar voru kynntar á blaðamannafundi í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í dag.

Í skýrslunni er gengið út frá því að lagður verði 1.200 kílómetra langur sæstrengur með 1.000 MW aflgetu. Skoðuð voru þrjú möguleg viðskiptalíkön fyrir sæstrenginn.

Er helsta niðurstaðan sú, eins og áður sagði, að verkefnið nær ekki lágmarksarðsemi nema til komi stuðningur frá breskum stjórnvöldum.

Samkvæmt úflutningslíkani skýrslunnar, sem styðst við þá forsendu að bresk stjórnvöld séu reiðubúin að styðja við verkefnið með svipuðum hætti og þau styðja nú þarlenda nýja endurnýjanlega raforkuvinnslu, er nettó ábati af verkefninu metinn um 1,4 milljarðar evra fyrir Ísland. Eru árleg jákvæð áhrif á landsframleiðslu því á bilinu 1,2-1,6%.

Skiptist ábatinn þannig að framleiðendur raforku njóta verulegs ávinnings en notendur verða fyrir kostnaði.

Sigurður Atli Jónsson og Magnús Bjarnason hjá Kviku á fundinum …
Sigurður Atli Jónsson og Magnús Bjarnason hjá Kviku á fundinum í dag. mbl.is/Eggert

Eykur orkuöryggi hér á landi

Í skýrslunni kemur enn fremur fram að lagning sæstrengs kallar á framkvæmdir hérlendis í bæði orkuvinnslu- og orkuflutningsmannvirkjum. Að því er fjárfestingar í raforkuvinnslu varðar útheimtir ein sviðsmyndin, miðsviðsmyndin, samtals 2.137 MW af nýju uppsettu aflið árið 2035, eða 1.459 MW umfram það sem áætlað er án sæstrengs.

Þá segir í skýrslunni að með tilkomu sæstrengs aukist eftirspurn eftir raforku á Íslandi um 7,4 TWst á ári. Á móti kemur er áætlað að lagning sæstrengs kunni að bæta nýtni núverandi raforkukerfis um sem nemur 1,5 TWst á ári. Tenging við Bretland myndi jafnframt auka orkuöryggi á Íslandi.

Leiðir til hærra raforkuverðs

Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar mun sæstrengur leiða til hærra raforkuverðs á Íslandi. Er áætlað að áhrifin geti orðið á bilinu 0,85 - 1,7 kr./kWst. Bent er á að algengt heildarraforkuverð heimila er um 17 kr./kWst og getur hækkunin því verið um 5-10% á einingaverði flestra heimila. Þó eru áhrifin mismunandi etir svæðum.

Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku, sagði á blaðamannafundinum að það gæti þýtt um 350 til 710 króna hækkun á raforkuverði á mánuði fyrir meðalheimili.

Mótvægisaðgerðir þó mögulegar

Hins vegar væri hægt að grípa til ýmissa mótvægisaðgerða til að mæta hækkun á raforkuverði, til dæmis lækkun á virðisaukaskatti á raforku og hvatakerfi til bættrar orkunýtni.

Sigurður benti meðal annars á að lækkun á virðisaukaskatti á raforku úr efra þrepi, 24,5%, í neðra þrep, 11%, eyddi áhrfum af raforkuverðshækkunum fyrir 90% heimila í landinu. Eftir stæðu þau 10% heimila sem ekki hafa aðgang að jarðvarma og væru sérstaklega viðkvæm gagnvart hækkun á raforkuverði.

Mótvægisaðgerðirnar eru einnig háðar því að þær samræmist skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum.

mbl.is/Eggert

Stóriðjan í skjóli

Reiknuð árleg áhrif hærra raforkuverðs á aðrar atvinnugreinar en stóriðju eru áætluð 2,1 til 4,2 milljarðar króna. Hærri kostnaður innlendra fyrirtækja leiðir til hærri tekna fyrir orkufyrirtæki og er hluti af tilflutningi auðs frá notendum til orkufyrirtækja samhliða hærra raforkuverði. Meira en helmingur þessarar kostnaðarhækkunar lendir á verslunar- og þjónustufyrirtækjum og sjávarútvegi, sem eru stærstu hópar raforkunotenda fyrir utan heimili og stóriðju. 

Hlutfallslega eru áhrifin þó mest hjá þeim fyrirtækjum þar sem raforkukostnaður er stór hluti af heildarkostnaði, til dæmis hjá garðyrkjubændum þar sem árleg kostnaðarhækkun er áætluð 70 til 140 milljónir króna, samkvæmt skýrslunni.

Núverandi langtímasamningar stóriðju veita tímabundið skjól fyrir hækkun raforkuverðs, að sögn Sigurðar Atla, en gildistími stærstu og lengstu samninganna nær fram yfir árið 2035.

Dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda

Samkvæmt skýrslunni mun sæstrengur geta uppfyllt um 2% af raforkunotkun í Bretlandi og eru árleg áhrif af tengingu á minnkun útblásturs gróðurhúsalofttegunda metin um 1 til 2,9 milljónir tonna CO2 ígilda á ári.

Nauðsyn að styrkja flutningskerfið

Til þess að geta fætt 1.000 MW sæstreng, sem lendir á Austurlandi, þarf að styrkja flutningskerfið mikið, að því er segir í skýrslunni. Byggja þarf upp kerfi með 400 kV spennu. Er kostnaður við styrkingu flutningskerfisins, miðað við tengipunkt á Austurlandi, áætaður á bilinu 30 til 75 milljarðar króna eftir stærð sæstrengs og kerfis.

Skýrsla Kviku og Pöyry

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert